Innlent

„Við erum alls ekki að mæla með almennri notkun á grímum“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við fréttastofu að líta verði í réttu ljósi á tilmæli stjórnvalda um grímuskyldu í almenningsrýmum þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli fólks. Þá segir hann grímunotkun alls ekki koma í staðinn fyrir tveggja metra regluna og almenn notkun á grímum sé ekki ákjósanleg.

Tilmæli um notkun gríma í ákveðnum tilfellum var hluti af hertum aðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins, sem kynntar voru í gær.

„Við höfum talað um það allan tímann að almenn notkun almennings á grímum muni sennilega ekki skila miklu, jafnvel litlu, og geti veitt falskt öryggi. Það höfum við talað um það allan tímann. Síðan var talað um það hér í júni, með grímuskyldu, þá sögðum við að það væri engin þörf á að nota grímur. Sérstaklega í ljósi þess að engin smit voru í gangi.“

Síðan þá hafi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin birt niðurstöður um að grímur geti gert gagn þar sem ekki er hægt að viðhafa aðrar sóttvarnir, svo sem nægilega mikla fjarlægð milli fólks.

„Það er á þeim grunni sem við erum að mæla með því að komið verði á leiðbeiningum um notkun gríma, þegar ekki er hægt að viðhafa aðrar sóttvarnir. Við erum alls ekki að mæla með almennri notkun á grímum.“

Þá segir Þórólfur að alltaf hafi legið fyrir að ef nýjar upplýsingar komi fram, um eitthvað sem gæti verið gagnlegt í sóttvörnum og baráttunni við kórónuveirufaraldurinn, verði það hiklaust tekið í notkun.

„Það er verið að taka inn í leiðbeiningar nýjustu upplýsingar.“

En hefur afstaða sérfræðinga gagnvart notkun gríma eitthvað breyst frá upphafi faraldursins?

„Hún hefur breyst að því leytinu til að það hafa komið nýjar niðurstöður fram um að grímur gætu komið að gagni í afmörkuðum tilvikum og aðstæðum. Það er á þeim grunni sem við komum með þetta núna, en alls ekki að almenningur fari að nota grímur almennt,“ segir Þórólfur.

Hann ítrekar þá það sem áður hefur komið fram, að grímur komi alls ekki í stað tveggja metra reglunnar.

Á covid.is, vef Landlæknis og Almannavarna, má nálgast allar helstu upplýsingar um gildandi takmarkanir, sóttvarnir og tölulegar upplýsingar um faraldurinn hér á landi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×