Innlent

Víðir og Þórólfur styttu sumarfríin

Sylvía Hall skrifar
Víðir og Þórólfur fóru í stutt sumarfrí en voru þó í stöðugum samskiptum við viðbragðsteymið á meðan því stóð. 
Víðir og Þórólfur fóru í stutt sumarfrí en voru þó í stöðugum samskiptum við viðbragðsteymið á meðan því stóð.  Vísir/Vilhelm

Vegna fjölgunar smita í samfélaginu ákváðu þeir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að stytta sumarfríin sín og snúa aftur til vinnu. Víðir var á blaðamannafundi í dag þar sem hertar aðgerðir voru kynntar og Þórólfur mun mæta á upplýsingafund almannavarna á morgun.

Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptafulltrúi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við Vísi en mbl.is hafði greint frá því í kvöld að Þórólfur myndi snúa aftur á morgun.

Fyrir viku síðan fór 88. upplýsingafundur almannavarna fram og átti sá fundur að vera sá síðasti í bili. Því blasti kærkomið sumarfrí við þeim félögum, en það entist ekki lengi þegar smitum fór að fjölga á ný. Boðað var aftur til upplýsingafundar á þriðjudag

Vegna faraldursins var þó ljóst að þeir yrðu aldrei í hefðbundnu sumarfríi og voru þeir í stöðugum samskiptum við viðbragðsteymið í þá fáu daga sem þeir voru í burtu.

Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller hafa verið tíðir gestir á skjám landsmanna undanfarna mánuði.Vísir/Vilhelm

Líkt og áður sagði mun Þórólfur vera á upplýsingafundi almannavarna á morgun en fundurinn verður í beinni útsendingu á morgun klukkan 14. Jóhann segir að landsmenn megi búast við fleiri upplýsingafundum nú þegar smitum er farið að fjölga á ný.

„Upplýsingamiðlun er lykilatriði í þeirri stöðu sem er uppi núna. Það verður upplýsingafundur á morgun og við gerum ráð fyrir því að það verði fleiri upplýsingafundir á næstunni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×