Innlent

Strætó fjar­lægir myndir af börnum sem voru teknar án leyfis for­eldra

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Myndin hefur verið tekin út af Instagram reikningi Strætó vegna brota á persónuverndarlögum.
Myndin hefur verið tekin út af Instagram reikningi Strætó vegna brota á persónuverndarlögum. Skjáskot/Instagram

Strætó tók nú fyrir hádegi niður myndir af krökkum sem birtar voru á Instagram-síðu Strætó en ekki var haft samband við foreldra barnanna áður en myndirnar voru birtar. Foreldri barns sem birt var mynd af á Instagram reikningi Strætó segir ljóst að börn séu ekki óhult í strætóvögnum á höfuðborgarsvæðinu.

Strætó hóf herferð á samfélagsmiðlum sínum nú í vor sem ber yfirskriftina #fólkiðístrætó en sama herferð var í gangi árið 2017 að sögn Guðmundar H. Helgasonar, markaðs- og upplýsingafulltrúa Strætó. Þá hafi þess verið gætt að haft var samband við foreldra barna áður en myndir af þeim voru birtar á samfélagsmiðlum en ljóst sé að mistök hafi verið gerð að þessu sinni.

„Starfsmaðurinn sem er í þessu núna hjá okkur hefur sennilega klikkað bara á því, ég held það sé ekkert flóknara en það. Hann hefur bara farið út með myndavélina, tekið myndir og viðtöl og ekkert endilega pælt í því meira. Þetta eru bara mistök af okkar hálfu. Við áttum auðvitað að hafa samband við foreldrana. Það er alveg rétt,“ segir Guðmundur í samtali við fréttastofu.

„Við bara gerum betur“

Foreldri drengs sem birt var mynd af á Instagram hafði samband við fréttastofu og vakti athygli á málinu. Foreldrið áréttar að til þess að birta mynd af barni á samfélagsmiðli þurfi fyrirtækið að fá samþykki forráðamanns, sem hafi sannarlega ekki verið gert í þessu tilviki. 

Herferðin felst í því að teknar eru myndir af notendum Strætó þar sem þeir bíða eftir vagni á stoppistöð og stutt viðtal sem svo er birt á Instagram reikningi Strætó.

Guðmundur segir að þetta verði nú áréttað við starfsmanninn sem sér um herferðina að það verði að hafa samband við foreldra. „Við bara gerum betur,“ segir Guðmundur. „Þetta er alveg rétt,“ segir Guðmundur. Þetta samræmist ekki persónuverndarlögum. „Þetta eru mistök hjá sölu- og markaðsdeildinni.“

Myndunum verði því kippt niður þar sem þetta samræmist ekki persónuverndarlögum. „Við þurfum bara að kippa myndinni niður, við bara gerum það. Þetta er bara góð ábending og við hefðum átt að gera betur í þessu tilviki. Þegar við byrjuðum á þessu pössuðum við okkur á þessu en svo höfum við kannski bara dottið í smá kæruleysi þarna.“

Tvær aðrar myndir eru af börnum á Instagram-reikningi Strætó undir formerkjum herferðarinnar sem birtar voru á síðustu tveimur vikum. Ekki liggur fyrir hvort haft hafi verið samband við foreldra þeirra áður en myndirnar voru birtar. 


Tengdar fréttir

Átök milli strætó­bíl­stjóra og far­þega

Átök komu upp milli strætóbílstjóra og farþega klukkan rétt rúmlega sjö í gærkvöldi. Lögregla var kölluð á staðin og var rætt við báða aðila með réttarstöðu sakbornings.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×