Innlent

Leigubílaferðirnar enduðu í fangaklefa

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Síðasti áfangastaður mannsins var í fangaklefa. 
Síðasti áfangastaður mannsins var í fangaklefa.  Vísir/vilhelm

Lögreglan segist tvívegis hafa aðstoðað leigubílstjóra í borginni vegna sama mannsins sem neitaði að greiða fargjaldið. Í fyrra skiptið er hann sagður hafa verið í slagtogi við annan mann um kvöldmatarleytið í gær en þeir báðir þveirneitað að borga fyrir farið. Ekki er tekið fram í dagbók lögreglu hvernig tókst að leysa úr þessu, hvort mennirnir hafi að endingu borgað eða hvort þeim hafi tekist að hlaupa á brott.

Lögreglan segir hins vegar að hún hafi haft hendur í hári annars mannsins þegar hann ætlaði sér að leika sama leik síðar um kvöldið. Hann hafi stigið upp í leigubíl en neitað að greiða fyrir skutlið og því hafi lögreglan aftur verið kölluð til. Næsti áfangastaður mannsins var því fangaklefi að sögn lögreglunnar, þar sem hann hefur fengið að verja nóttinni.

Tvö umferðarslys komu jafnframt inn á borð lögreglunnar í nótt. Bæði slysin urðu þegar tveir bílar skullu saman, annars vegar í vesturbæ Reykjavíkur og hins vegar á gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Flytja þurfti einn á spítala eftir fyrrnefnda slysið en betur fór í því síðarnefnda. Allir fjórir bílarnir voru svo illa leiknir eftir slysin tvö að draga þurfti þá alla á brott með dráttarbíl.

„Nokkrar tilkynningar komu í gærkvöldi um unglinga að aka ógætilega á vespum við Breiðholtsskóla. Svipaðar tilkynningar hafa verið að koma mjög reglulega inn á borð hjá lögreglu síðustu daga og vill lögregla brýna fyrir foreldrum að ræða við börn sín um að fara varlega á vespum eða sambærilegum ökutækjum,“ segir að sama skapi í dagbók lögreglunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×