Innlent

Katrín segir síst verra að kjósa að hausti en vori

Heimir Már Pétursson skrifar
Ef stjórnarsamstarfið heldur verður boðað til alþingiskosninga hinn 25. september 2021. Forsætisráðherra bendir á að haustkosningar tíðkist víða í nágrannalöndum.
Ef stjórnarsamstarfið heldur verður boðað til alþingiskosninga hinn 25. september 2021. Forsætisráðherra bendir á að haustkosningar tíðkist víða í nágrannalöndum. Stöð 2/Baldur Hrafnkell

Forsætisráðherra stefnir að því að alþingiskosningar fari fram hinn 25. september á næsta ári, mánuði fyrr en kjörtímabilið rennur út. Hún segir síst verra að kjósa að hausti en vori eins og lengst af hefur verið hefðin á Íslandi.

Eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra árið 2016 var alþingiskosningum sem annars áttu ekki að fara fram fyrr en árið 2017 flýtt og kosið í október 2016. Þá var mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar en sú stjórn sprakk eftir átta mánuði og aftur var kosið í októbermánuði árið 2017. Kjörtímabil núverandi ríkisstjórnar rennur því ekki formlega út fyrr en 28. október á næsta ári.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti formönnum annarra flokka þessa ákvörðun sína í gærdag. Þótt oftast hafi verið kosið til Alþingis að vori sé eðlilegt að virða regluna um að kjörtímabil sé fjögur ár.

„Þetta er þá eins nálægt því og verður komist. Að teknu tilliti til þess að við séum að heyja kosningabaráttu í sæmilegu veðri og sæmilegri færð, sem er ágætt í september. Sömuleiðis að ríkisstjórn sem verður mynduð að loknum næstu kosningum hafi þann tíma sem þarf til að ljúka við fjárlagagerð,“ segir Katrín.

Forystumenn stjórnarandstöðuflokka eru ekki sáttir við ákvörðun forsætisráðherra um haustkosningar. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sögðu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata tilganginn vera að hanga sem lengst á valdastólum.Vísir/Vilhelm

Í nýju lagaumhverfi um opinber fjármál sé alltaf unnið út frá langtíma áætlunum. Því ætti tíminn frá kosningum í lok september fram að jólum að duga.

„Þá værum við að komumst við framhjá því sem lengi hefur verið kallað kosningafjárlög. Þar sem sett eru fram fjárlög sem eiga að hafa áhrif á stemminguna fyrir kosningar. Ég held að þessi tímasetning sé góð til að einmitt losna við þann sið,“ segir Katrín.

Það sé enginn náttúrlegur tími til að boða til kosninga.

„Til að mynda ef við lítum til nágrannalanda okkar. Þá eru Noregur og Svíþjóð að venju með kosningar að hausti. Finnar með kosningar að vori. Danir geta haft kosningar hvenær sem er í raun og veru á árinu. Þar er oft boðað til kosninga með tiltölulega skömmum fyrirvara,“ segir Katrín Jakobsdóttir.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.