Lífið

Guðlaugur Þór reyndi að tæla fréttamann CNN

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vel fór á með þeim Richard Quest og Guðlaugi Þór Þórðarsyni í gærkvöldi.
Vel fór á með þeim Richard Quest og Guðlaugi Þór Þórðarsyni í gærkvöldi. skjáskot

Richard Quest, fréttamaður CNN, var hæstánægður með bakgrunninn sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, valdi fyrir spjall þeirra tveggja. Guðlaugur Þór var í beinni Skype-útsendingu frá Skaftárhreppi sem skartaði sínu fegursta í kvöldsólinni í gær.

„Þú gjörsigraðir mig með vali þínu á bakgrunni,“ sagði Quest þegar Guðlaugur Þór birtist í mynd. „Þú ert að reyna að tæla okkur í kvöld.“ Guðlaugur Þór sagði að því væri ekki að neita. 

„Þú hefur hárrétt fyrir þér. Ég er að reyna að lokka ykkur en því miður geta ekki öll komið sem stendur en við vonum að þau geti það fyrra en síðar,“ sagði ráðherrann.

Þeir Quest og Guðlaugur ræddu Ísland sem áfangastað ferðamanna á tímum kórónuveirunnar. Utanríkisráðherra reifaði hvað Íslendingar hafa gert til að liðkað fyrir komu ferðamanna, þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu og áhrif þess á opnun landsins.

Eftir stutt spjall þakkaði Quest Guðlaugi fyrir og ítrekaði hrifningu sína á bakgrunni ráðherrans. „Það er ennþá um hálftími eftir af þættinum en fram til þessa ertu sigurvegari keppninnar „besti landslagsbakgrunnur þáttarins“ sem er auðvitað nákvæmlega það sem þú ætlaðir þér,“ sagði Quest og Guðlaugur glotti.

Spjall þeirra Quest og Guðlaugar má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×