Innlent

Mugison tróð upp í Skálavík með skömmum fyrirvara

Heimir Már Pétursson skrifar

Tónlistarmaðurinn Mugison tróð óvænt upp með tónleika í Skálavík fyrir vestan í gær og og boðar að hann muni birtast með gítarinn án fyrirvara hér og þar um landið.

Hafþór Gunnarsson fréttamaður okkar í Bolungarvík beinlínis rann á gítarhljómana og rödd Mugison þegar hann tróð óvænt upp í Skálavík skammt frá Bolungarvík í gærdag.

Mugison greindi einungis frá tónleikunum á heimasíðu sinni örskömmu áður en hann hóf upp raust sína í Skálavík.

Mugison segist ætla að fylgjast með veðurspám og troða upp þar sem gott er veður með skömmum fyrirvara hér og þar um landið.Stöð 2/Hafþór Gunnarsson

„Við náttúrlega búum hérna rétt hjá og búin að koma hérna á þetta yndislega svæði í mörg, mörg ár. Mig er búið að dreyma um að spila hérna. Þetta er náttúrlega hálfgert leikhús, svona uppstilling, lítið svið og eftir hádegi í dag ákváðum við bara að rúnta og búa til tónleika hérna. Loksins," sagði Mugison hæst ánægður með hvað margir mættu.

Eitthvað á þriðja hundrað manns nutu veðurblíðunnar og náttúrunnar undir tónlist Mugison í heimahögunum. En hann boðar að fólk víðs vegar um landið megi búast við að hann birtist óvænt og telji í tónleika með litlum fyrirvara.

Heimamenn og ferðalangar fyrir vestan létu vel að flutningi ísfirska rokkarans í Skálvík í gær.Stöð 2/Hafþór Gunnarsson

„Það var planið í sumar að fara hingað og þangað. Þetta er góð byrjun. Fer svolítið eftir veðurspánni. Strax og það verður aftur gott veður ætla ég í gang og taka fleiri á svona náttúruperlu,“ segir Mugison en heyra má og sjá hann taka lagið í Skálavík í innslagi með þessari frétt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×