Erlent

Rann­saka dauða manns eftir að mynd­band sýndi lög­reglu krjúpa á baki hans

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Black Lives Matter mótmælaganga í Liege í Belgíu.
Black Lives Matter mótmælaganga í Liege í Belgíu. EPA-EFE/JULIEN WARNAND

Belgísk yfirvöld hafa hafið rannsókn á dauða manns eftir að myndbandi var deilt á samfélagsmiðlum sem sýna lögreglumann krjúpa á baki mannsins. Að sögn lögreglu var maðurinn, sem var 29 ára gamall Alsíringur, handtekinn fyrir utan kaffihús í Antwerp á sunnudag eftir að hann reyndi að ráðast á hóp fólks.

Maðurinn lést á sjúkrahúsi nokkrum klukkustundum síðar. Dauði hans hefur verið borinn saman við dauða George Floyd, sem lést í maí eftir að lögregluþjónar krupu á hálsi hans við handtöku í Bandaríkjunum.

Að sögn talsmanns lögreglu barst útkall til lögreglu vegna manns sem var í miklu uppnámi og hafði reynt að ráðast á fólk. Talsmaðurinn bætti því við að hann hafi virst vera í vímu og að hann hafi þegar verið slasaður.

Þá sagði lögreglan í Antwerp á Twitter að hún myndi ekki tjá sig frekar um málið vegna rannsóknarhagsmuna. Maðurinn hefur verið nefndur á samfélagsmiðlum sem Akram og myllumerkin #JusticeForAkram og #MurderInAntwerp hafa verið algeng á samfélagsmiðlum.

Þúsundir Belga mótmæltu kynþáttamisrétti í kjölfar dauða George Floyd og meira en 80 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að allar styttur af Leópold II Belgakonungi, hvers valdatíð í Austur-Kongó leiddi til dauða milljóna íbúa landsins, í Brussel höfuðborg Belgíu yrðu teknar niður. Stytta af konunginum hefur þegar verið tekin niður í Antwerp eftir að hún var skemmd í mótmælum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×