Innlent

Nýr kjarasamningur kynntur fyrir flugfreyjum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fulltrúar samninganefndar og stjórnar FFÍ kynna samninginn
Fulltrúar samninganefndar og stjórnar FFÍ kynna samninginn Vísir/Birgir

Nýundirritaður kjarasamningur Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) verður kynntur félagsmönnum FFÍ á fundi sem boðað var til nú klukkan 11. Fjölmennt er á fundinn, sem haldinn er á Hilton Nordica-hótelinu við Suðurlandsbraut, og hófst hann með dynjandi lófataki félagsmanna.

Fulltrúar samninganefndar og stjórnar FFÍ kynna nýja kjarasamninginn. Til stendur að atkvæðagreiðsla um hann hefjist á miðvikudag, 22. júlí, og standi til og með mánudeginum 27. júlí.

Nýr kjarasamningur Icelandair og FFÍ var óvænt undirritaður aðfaranótt sunnudags. Hann byggir á fyrri samningi sem felldur var í atkvæðagreiðslu hjá FFÍ í lok júní, eftir langar og strangar kjaraviðræður. Þá felur nýi samningurinn m.a. í sér breytingar á tveimur umdeildum ákvæðum, að því er fram kom í tilkynningu FFÍ um helgina.

Uppfært klukkan 12:05:

Lítið hefur kvisast út af fundinum um einstök efnisatriði samningsins en eftir því sem fréttamaður á vettvangi kemst næst er um að ræða nær sama samning og felldur var í lok júní. 

Þá tók kynning á kjarasamningnum sjálfum skamman tíma en að henni lokinni tóku fulltrúar stjórnar og samninganefndar við fyrirspurnum. Heyra mátti lófatak eftir að hver félagsmaður hafði lokið máli sínu. Viðbúið er að fundinum ljúki nú skömmu eftir hádegi.

Flugfreyjur koma sér fyrir.Vísir/birgir
Fjölmennt er á fundinum á Hilton Nordica nú fyrir hádegi.Vísir/birgir
Séð frá háborðinu.Vísir/birgir


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×