Innlent

Jarðskjálfti á Reykjanesi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Samkvæmt Veðurstofunni varð skjálftinn skammt frá Fagradalsfjalli á Reykjanesi.
Samkvæmt Veðurstofunni varð skjálftinn skammt frá Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Loftmyndir

Snarpur jarðskjálfti sem var 5 að stærð varð við Fagradalsfjall á Reykjanesi um klukkan 23:36 í kvöld, samkvæmt fyrstu niðurstöðum á vef Veðurstofunnar. Unnið er að nánari staðsetningu og stærðarútreikngum. 

Skjálftinn fannst vel á Suðurnesjum, víða á höfuðborgarsvæðinu, austur í Landeyjar og upp í Holta- og Landssveit á Suðurlandi, sem og vestur á Akranes, ef marka má færslur á samfélagsmiðlum. 

Veðurstofunni hafa einnig borist óstaðfestar tilkynningar um grjótrhun úr Fagradalsfjalli, en í samtali við Vísi sagði náttúruvársérfræðingur hjá stofnuninni að ein náttúruvá, til dæmis jarðskjálfti, gæti oft leitt til annarrar, til að mynda grjóthruns.

Skjálftinn er skráður 5 að stærð, þrjá kílómetra norður af Fagradalsfjalli, í óyfirförnum frumniðurstöðum sem finna má á vef Veðurstofunnar

Margir minni eftirskjálftar hafa mælst á svæðinu í kjölfar stóra skjálftans, sá stærsti 3,5 að stærð klukkan 00:08, samkvæmt óyfirförnum frumniðurstöðum. Sá skjálfti fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, samkvæmt ábendingum sem fréttastofu hafa borist.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að um 700 skjálftar hafi orðið við Fagradalsfjall í dag og viðbúið sé að þeir verði fleiri. Fólk er hvatt til að kynna sér viðbrögð vegna jarðskjálfta sem finna má hér.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×