Fótbolti

Aron Elís og félagar skrefi nær Evrópusæti

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Aron Elís í leik með OB.
Aron Elís í leik með OB. vísir/getty

Fjölmargir íslenskir knattspyrnumenn voru í eldlínunni með liðum sínum víðsvegar um Evrópu í dag.

Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn í vörn Bröndby þegar liðið beið lægri hlut fyrir AaB í dönsku úrvalsdeildinni. Aron Elís Þrándarsson spilaði síðari hálfleik fyrir OB þegar liðið vann 2-0 sigur á Randers og komst þar með skrefi nær Evrópusæti.

Hólmbert Aron Friðjónsson og Davíð Kristján Ólafsson léku allan leikinn í 2-1 tapi Álasund gegn Stabæk í norsku úrvalsdeildinni.  Daníel Leó Grétarsson kom inn af bekknum og lék síðasta stundarfjórðunginn.

Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn í fremstu línu Valerenga sem gerði markalaust jafntefli við Kristiansund. 

Emil Pálsson og Viðar Ari Jónsson voru báðir í byrjunarliði Sandefjord sem beið lægri hlut fyrir Rosenborg, 2-1. Ari Leifsson sat hins vegar allan tímann á varamannabekk Strömsgodset sem steinlág fyrir Molde á heimavelli, 0-4.

Í Póllandi lék Böðvar Böðvarsson allan leikinn í vörn Jagiellonia Bialystok sem tapaði stórt fyrir Lech Poznan á útivelli, 4-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×