Innlent

„Á­kveðin við­bótar­hag­ræðing fyrir fyrir­tækið“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Vilhelm

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, kveðst að svo stöddu ekki geta tjáð sig mikið um smáatriði nýs kjarasamnings FFÍ og Icelandair sem undirritaður var í nótt, eða í hverju helstu breytingar frá síðasta samningi eru fólgnar.

„Það eru ákveðin atriði sem eru gerðar áherslubreytingar á og skýrð betur og síðan er ákveðin viðbótarhagræðing fyrir fyrirtækið í þessum nýja samning,“ segir Bogi í samtali við fréttastofu í Karphúsinu í nótt. Hann ítrekar að enn eigi eftir að kynna samninginn fyrir félagsmönnum FFÍ.

Spurður hvort það hafi verið fljótfærni af hálfu félagsins að grípa til uppsagna á föstudaginn, sem vöktu mikil og hörð viðbrögð, segir Bogi svo ekki vera.

„Nei alls ekki, við fórum í þær aðgerðir sem voru mjög erfiðar að sjálfsögðu, erfið ákvörðunartaka í þeirri stöðu sem við vorum í í gær [föstudag] og það var staðan sem var á borðinu í gær en nú er komin ný staða á borðið,“ segir Bogi.

Var samningsstaða aðila að einhverju leyti frábrugðin því sem að var fyrir uppsagnirnar, var Icelandair í betri stöðu til að semja eftir þá ákvörðun?

„Nei ég held ekki. Við vorum bara að bregðast við aðstæðum í gær [föstudag] og svo síðan halda áfram einhverjar þreifingar í dag og þetta endar svona, með samningi sem betur fer,“ svarar Bogi.

Hann kveðst bjartsýnn á að flugfreyjur samþykki samninginn.

Og þessi samningur, heldur þú að þetta sé stór liður í því að koma Icelandair út úr þeirri stöðu sem að hefur verið uppi síðustu vikur og mánuði?

„Já þetta er mjög mikilvægur þáttur í því að ganga frá samningum við Flugfreyjufélag Íslands alveg eins og við erum búin að semja við Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Flugvirkjafélagið. Þannig að við höfum sagt það, að semja við allar flugstéttirnar til lengri tíma er gríðarlega mikilvægur þáttur í þessu verkefni sem við erum í,“ segir Bogi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.