Innlent

Ræsin hafa ekki undan á Suðureyri

Sylvía Hall skrifar
Víða rennur yfir vegi vegna veðursins en talsverð úrkoma er á svæðinu.
Víða rennur yfir vegi vegna veðursins en talsverð úrkoma er á svæðinu. Aðsend

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum og var mikið vatnsveður í nótt, til að mynda á Suðureyri þar sem vatn flæðir um götur og höfnin orðin mórauð. Búist er við frekari úrkomu í dag og hefur Veðurstofan beint þeim tilmælum til fólks að fylgjast vel með veðurspá og aðvörunum.

Páll Önundarson, sem búsettur er á Flateyri, átti leið um Suðureyri í dag þar sem mátti greinilega sjá ummerki vatnsveðursins í nótt. Víða rennur yfir vegi en staðan er þó skítsæmileg, eins og Páll orðar það sjálfur.

„Á lægstu punktunum er vatn, það rennur yfir vegin og ræsin hafa ekki við,“ segir Páll í samtali við Vísi. Hann segir nóttina ekki hafa verið afgerandi slæma þó veðurguðirnir hafi látið finna fyrir sér.

„Það var hviðótt og það rigndi helvíti hraustlega.“

Frá Suðureyri í dag.Aðsend

Lögreglan á Vestfjörðum hefur gefið út tilkynningu þar sem segir að vatnsveðrið hafi aukið hættuna á aurskriðum og grjóthruni úr hlíðum á svæðinu. Ekki er talin mikil hætta á mannskæðum aurskriðum eða grjóthruni en íbúar eru hvattir til þess að fara varlega.

Þá eru sérstaklega tiltekin hús nr. 7 og 9 við Hjallabyggð og hús nr. 10, 12 og 14 við Túngötu. Ekki er talin ástæða til þess að rýma þessi hús en opnuð hefur verið móttaka á veitingastaðnum Fisherman við Aðalgötu og eru íbúar velkomnir þangað.

Páll birtir í dag myndir frá Suðureyri þar sem má sjá að nokkuð hraustlega hefur rignt á svæðinu í nótt. Til að mynda er vatnið í höfninni brúnt á lit og segir hann litinn nokkuð fallegan að sjá.

„Þetta er bara drullan úr fjallinu. Það er bara að hreinsast lækir sem hafa ekki runnið í nokkur ár, svo allt í einu kemur vatn í þá og þá verður það bara brúnt.“

„Hún er fallega brún höfnin,“ segir Páll Önundarson.Aðsend

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×