Innlent

Veður versnar víðar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gular viðvaranir næsta sólarhringinn.
Gular viðvaranir næsta sólarhringinn. Veðurstofa Íslands

Veðrið verður verra á landinu næsta sólarhringinn en upphaflegar spár Veðurstofunnar gerðu ráð fyrir. Af þeim sökum hefur verið tekin ákvörðun um að gefa út fleiri gular veðurviðvaranir; þær gilda nú fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, auk hinnar áður boðuðu gulu viðvörunar á miðhálendinu.

Spáð er allhvössum vindi á hálendinu í kvöld og á norðvestanverðu landinu á morgun. Viðvörun fyrir miðhálendið tekur gildi klukkan 19:00 í kvöld. Viðvörun fyrir Vestfirði og norðvesturland tekur gildi klukkan 13:00 á morgun.

Ferðalangar og útivistarfólk er hvatt til þess að kynna sér veðurspár vel áður en lagt er af stað í ferðalög. Slæmt veður er til útivistar á landinu öllu næstu daga.

„Það er kannski ekki skemmtilegt veður til útivistar neins staðar á landinu um helgina. Á laugardag og sunnudag verður skásta veðrið á Suðurlandi. Þar ætti að hanga þurrt en strekkingsvindur eða jafnvel allhvass,“ sagði Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu í morgun.

Veðurstofan gerir þannig ráð fyrir hvössum vindi, talsverðri eða mikilli rigningu og búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Þá verður varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Gangi spár eftir er varasamt fyrir göngufólk að vera á ferli og þá sem hafast við í tjöldum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Norðan 13-20 m/s, en mun hægari um landið A-vert. Talsverð rigning N-lands og slydda eða snjókoma til fjalla NV-til á landinu, en úrkomuminna sunnan heiða. Hiti 5 til 14 stig, hlýjast syðst.

Á laugardag:

Norðan 10-18 með kalsarigningu á N-verðu landinu og slyddu eða snjókomu til fjalla, en þurrt og bjart veður S-lands. Hiti 3 til 14 stig, mildast á SA-landi.

Á sunnudag:

Minnkandi norðanátt. Léttskýjað S-lands og dregur úr vætu N-til á landinu. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast á S- og V-landi.

Á mánudag og þriðjudag:

Vestlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og líkur á síðdegisskúrum. Hiti 8 til 15 stig.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.