Fréttir

„Þeir geta skotið málinu til félagsdóms ef þeir telja þetta brot á verkfallslögum“

Birgir Olgeirsson skrifar
Herjólfur III siglir fjórar áætlunarferði í Landeyjahöfn í dag. 
Herjólfur III siglir fjórar áætlunarferði í Landeyjahöfn í dag.  Vísir/Vilhelm

„Þetta er bara verkfallsbrot eins og þetta lítur út við fyrstu sýn,“ segir Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélags Íslands, inntur eftir viðbrögðum við ákvörðun Herjólfs ofh. um að sigla Herjólfi III, eða gamla Herjólfi, fjórar ferðir í Landaeyjahöfn í dag.

Vinnustöðvun hefur staðið yfir hjá félagsmönnum Sjómannafélags Íslands sem starfa á Herjólfi og áætlunarferðir því legið niðri.

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., segir í samtali við Vísi að þeir sem munu manna áhöfn gamla Herjólf séu starfsmenn fyrirtækisins en í öðrum stéttarfélögum.

„Þeir geta skotið málinu til félagsdóms ef þeir telja þetta brot á verkfallslögum. Við gerum enga athugasemd við það,“ segir Guðbjartur og á þar við Sjómannafélag Íslands.

Hann segir skipstjóra og stýrimenn tilheyra öðru stéttarfélagi og aðrir sem munu manna áhöfn gamla Herjólfs í Sjómannafélaginu Jötni í Vestmannaeyjum.

Ástæðan fyrir því að gamli Herjólfur er notaður er tvíþætt. Annars vegar er krafa um vaktstöðuskírteini á nýja Herjólf en ekki á þeim gamla. Hins vegar ákvað Herjólfur ofh. að nýta tækifærið á meðan vinnustöðvuninni stendur að fara í ýmiskonar viðhald á nýja Herjólfi fyrir ábyrgðarskoðun í september. Meðal annars er verið að sinna lagfæringum á hurðum, lyftum og afturhlera.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×