Innlent

Álftarparið á Árbæjarlóni virðist hafa misst annan ungann sinn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Álftarparið var aðeins með einn unga á Árbæjarlóni í kvöld. Breiðholtshvarf í baksýn.
Álftarparið var aðeins með einn unga á Árbæjarlóni í kvöld. Breiðholtshvarf í baksýn. Vísir/KMU.

Álftarparið sem heldur til á Árbæjarlóni virðist hafa misst annan ungann sinn. Hræ, sem virðist vera af álftarunga, má sjá liggja hálfmarandi í kafi í árkvísl við Árbæjarstíflu.

Álftin verpir árlega í Blásteinshólma neðan Breiðholtshvarfs en hreiðrið er jafnan á sama stað skammt ofan stíflunnar. Í vor komust aðeins tveir ungar úr hreiðrinu en algengt er að þeir séu fjórir til fimm talsins og raunar komust sex ungar á legg sumarið 2016.

Hræið sem marar í hálfu kafi við Árbæjarstíflu virðist vera af álftarunga.Vísir/KMU.

Þar til fyrir fáum dögum voru ungarnir tveir með foreldrum sínum. Núna sést álftarparið synda um með aðeins annan ungann á lóninu. Virðist sem hinn unginn hafi drepist af einhverjum orsökum.

Ekki virðist í fljóti bragði hægt að álykta út frá aðstæðum hvað hafi orðið honum að aldurtila. Nærtækast er því að álykta að dauða hans megi rekja til náttúrulegra orsaka.

Sumarið 2018 gerðist það einnig að það fækkaði um einn í ungahópnum þegar leið á sumarið.

Foreldrarnir með eina ungann á milli sín á Árbæjarlóni í kvöld.Vísir/KMU.

Álftafjölskyldan hefur jafnan verið mikill gleðigjafi þeirra sem ganga reglulega um Elliðaárdal, eins og sjá mátti í þessari frétt Stöðvar 2 í fyrra:

Hér má sjá þegar ungarnir voru sex talsins sumarið 2016:



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×