Innlent

95 prós­ent um­sækj­end­a um al­þjóð­leg­a vernd eru barn­a­fjöl­skyld­ur

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Tæplega áttatíu manns hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá því að landamærin opnuðu um miðjan júní.
Tæplega áttatíu manns hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá því að landamærin opnuðu um miðjan júní. Vísir/Vilhelm

Tæplega áttatíu manns hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá því landamærin voru formlega opnuð þann 15. júní. Níutíu og fimm prósent umsækjenda eru barnafjölskyldur sem nú þegar hafa fengið vernd í öðrum ríkjum. Útlendingastofnun býr sig undir að taka á móti stórum hópum næstu vikur.

Nánast enginn sótti um alþjóðlega vernd í apríl og maí þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. Frá því landamærin voru formlega opnuð þann 15. júní hafa umsóknirnar hrannast inn.

„Þetta er að koma hratt inn. Við fengum sautján manns eftir 15. júní til mánaðarmóta. Síðan erum við búin að fá 58 manns frá 1. júlí til 11. Júlí,“ segir Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.

Þetta eru heldur fleiri en í fyrra þegar 73 sóttu um vernd allan júlí mánuð. Allir umsækjendur komu frá löndum innan Schengen-svæðisins. Sjötíu prósent hópsins er frá Írak og 32 prósent frá Sýrlandi.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd fara í skimun í Leifsstöð

„Það er að koma frá Grikklandi, Ungverjalandi og Ítalíu að mestu leyti. Rúmlega 90 prósent er þegar með vernd í þessum ríkjum sem ég var að telja upp.“

Framkvæmdin á Norðurlöndunum sé ekki sambærileg og hér á landi. Þar fari mál fólks sem nú þegar er með vernd í öðrum ríkjum í hraða málsmeðferð og í flestum tilfellum sé því snúið til baka til þess ríkis.

„Það er ekki með þeim hætti hér. Við erum að taka mun fleiri verndarmál yfir. Sérstaklega þegar um er að ræða fólk með vernd á Grikklandi, Ungverjalandi eða á Ítalíu,“ segir Kristín.

Fólk sé meðvitað um hvaða reglur gilda hér á landi. „Netið er opið og það fréttist allt.“

Umsækjendur um alþjóðlega vernd fara í skimun á Keflavíkurflugvelli og þurfa að svo að dvelja í fimm daga í farsóttarhúsinu áður en þeir fara í aðra skimum. Reynist það aftur neikvætt fær fólk að fara í búsetuúrræði Útlendingastofnunar. 34 hælisleitendur dvelja nú í farsóttarhúsinu, þar af tólf börn.

„Það er yfir 95 prósent barnafjölskyldur í þessum ellefu daga hóp. Við vitum náttúrulega ekki hvað næstu dagar og vikur bera í skauti sér en það er óvarlegt að ætla að komum fækki þannig við verðum að vera undirbúin í að taka á móti svo stórum hóp af fólki á næstu vikum og mánuðum.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.