Innlent

Fjölskyldan fer í sóttkví í húsbíl á Vestfjörðum

Andri Eysteinsson skrifar
Þorvaldur Flemming Jensen
Þorvaldur Flemming Jensen

Þorvaldur Flemming Jensen er einn þeirra fjölmörgu Íslendinga, sem búa erlendis en hyggjast koma til landsins í frí. Þorvaldur viðurkennir að hann hafi verið tvístígandi og segir fyrirkomulag með fjögurra daga sóttkví íslenskra ríkisborgara enn þá vera óljóst.

„Það eru ekki komnar leiðbeiningar svo þetta kom svolítið flatt upp á okkur. Ég er svolítið spenntur að sjá hvernig þetta fer með þessa skimun á íslenskum ríkisborgurum sem eru að koma til Íslands og hvernig þeir eiga að haga sér,“ sagði Þorvaldur í samtali við Heimi og Gulla í Bítinu á Bylgjunni.

Þorvaldur ætlaði upphaflega að koma til landsins ásamt fjölskyldunni sinni og verja hér á landi einni viku. Fjögurra daga sóttkví er þó talsverður hluti af því fríi sem fjölskyldan hafði hug á. Því hefur ferðaáætlunum verið breytt.

Þorvaldur sagðist hafa leigt sér húsbíl og ætlaði sér að halda á Vestfirði. Þorvaldur nefndi þar Hornstrandir en ætla má að hann hafi átt við Strandir enda ekki fært bílum á Hornstrandir.

„Fyrst í húsbílnum einangraður með fjölskyldunni og svo ætla ég að reyna að finna mér bústað einhvers staðar á Suðurlandi.“

Þorvaldur sendi svo út hjálparkall í gegnum útvarpið og óskaði eftir sumarbústað til leigu.

Þorvaldur sagði andrúmsloftið í Danmörku vera svipað og hér á landi. Danir séu byrjaðir að ferðast og þá að mestu innanlands. Nokkrir séu þó farnir að fara út fyrir landsteinana. „ Þetta eru þessar styttri ferðir og staðir sem að fólk þekkir en það er langmest í Danmörku,“ sagði Þorvaldur Flemming í samtali við Bítið á Bylgjunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.