Innlent

Á­kvörðun ÍE hafi engin á­hrif á skimun Nor­rænu­far­þega

Telma Tómasson skrifar
Norræna.
Norræna. Vísir/Jói K.

Ákvörðun Íslenskrar erfðagreiningar um að draga sig úr samstarfi um landamæraskimun hefur engin áhrif á komu 750 farþega með Norrænu hingað til lands í morgunsárið. Taka þarf sýni úr tæplega 500 farþegum. Tólf manna teymi heilbrigðisstarfsfólks flaug til Færeyja í gær og er um borð í ferjunni, 10 manns sinna sýnatöku og tveir eru tæknimenn.

Byrjað verður að taka sýnin 24 sjómílum frá landgrunni Íslands og er áætlað að starfinu sé að mestu lokið þegar skipið leggst að bryggju á Seyðisfirði klukkan hálf níu, að sögn Lindu Gunnlaugsdóttur, framkvæmdastjóra Smyril Line.

Teymið er mannað af starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Austurlands og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Til stóð að hópurinn væri að hluta mannaður af starfsmönnum Íslenskrar erfðagreiningar, en hætt var við aðkomu þeirra í ljósi breytinga. Næstu þrjár vikur er áætlað að um 750 til 800 farþegar komi með Norrænu hingað til lands í hverri viku.

Í frétt á vefsíðu Austurfréttar segir að farþegar fái afhent upplýsingablað við komuna til landsins þar sem þeim er meðal annars ráðlagt að nota ekki almenningssamgöngur, halda kyrru fyrir á áfangastað eða heimili og forðast náin samskipti, þar til niðurstöður skimunarinnar liggja fyrir.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir í samtali við Austurfrétt að farþegar séu duglegir að fara eftir fyrirmælum og hvetur jafnt þá sem heimamenn að gæta að persónulegum smitvörnum og fjarlægðatakmörkunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.