Innlent

Of­beldi ung­menna birt á sam­fé­lags­miðlum í auknum mæli

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs og ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkurborgar seigr ofbeldi meðal ungmenna sem gjarnan er deilt á samfélagsmiðlum mikið áhyggjuefni.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs og ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkurborgar seigr ofbeldi meðal ungmenna sem gjarnan er deilt á samfélagsmiðlum mikið áhyggjuefni. Vísir/Vilhelm

Formaður velferðarráðs og ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkurborgar segir ofbeldi ungmenna sem gjarnan er deilt á samfélagsmiðlum sé mikið áhyggjuefni. Erfitt geti verið að bregðast við slíku ofbeldi en það sé alveg nýtt á nálinni að ofbeldinu sé dreift á samfélagsmiðlum.

Myndbönd af börnum og ungmennum að beita hvort annað ofbeldi eru í dreifingu á netinu og inni á samfélagsmiðlum. Vandamálið er vaxandi og þá sérstaklega að myndböndin séu í dreifingu á samfélagsmiðlum.

„Við höfum fengið veður af þessu og héldum fund í vor þar sem við ræddum þessi myndbönd og þessa nýju birtingarmynd á ofbeldi gegn börnum og vorum þar með bæði barnaverndarnefnd og lögregluna og veltum fyrir okkur hvernig er best að bregðast við. Það er auðvitað sláandi að sjá svona og manni bregður en ég held það þurfi bara að taka þetta föstum tökum og læra af þessu og reyna að kynna fyrir þeim að þetta er alvarlegur hlutur,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs og formaður ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkurborgar í Reykjavík síðdegis nú í dag.

Hún segir ekkert benda til þess að ofbeldi þar sem börn beita önnur börn ofbeldi sé að aukast. Þessi nýja birtingarmynd sé hins vegar eitthvað sem sjáist nú í meira mæli en áður hafi þekkst. „Það kannski flækist fyrir okkur að því leiti að mikið af forvarnarstarfinu er byggt upp í hverfunum, við þekkjum foreldrana og foreldrar kynnast en þetta eru kannski oft krakkar sem börnin þekkja ekki. Þetta flækir aðeins forvarnarstarfið og viðbrögðin í kerfinu,“ segir Heiða.

Hún segir það óljóst í mörgum tilvikum hvort börnin tengist þá í gegn um samfélagsmiðla. „Við fengum einmitt lögregluna, sem hefur verið að rannsaka nokkur svona mál og það er oft óljóst hver tengslin eru og hvar þau liggja. Það flækir líka fyrir okkur foreldra ef við ætlum að bregðast við og tala við foreldrana.“

Hún segir mikilvægt að foreldrar séu í góðum tengslum við börnin sín og ræði þessi mál.„Ég held að við öll, foreldrar, þurfum að átta okkur á því að það er mjög margt í gangi hjá börnunum okkar. Bæði á samfélagsmiðlum og ekki á samfélagsmiðlum. Ég held það mikilvægasta sem foreldri sé að vera í góðum tengslum við barnið sitt og tala við það um svona hluti og sem mest og reyna að passa það að fá að vera þátttakandi í þeirra lífi, upp að því marki sem að þau eru tilbúin til.“

Mikilvægt að traust sé til staðar

„Ég held að það sé það sem er allra mikilvægast, að maður sleppi ekki alveg af þeim hendinni þegar þau fara inn í unglingsárin og reyna að halda þessu sambandi. Auðvitað að fylgjast með en ég er svo sem ekki að hvetja til þess að foreldrar séu að fylgjast með öllu sem börnin gera, þá er traustið fljótt að fara. Þetta er auðvitað traust og líka kannski að við séum ekki alveg blind á það að okkar börn eru ekkert öruvísi en önnur börn.“

Þá segir hún það erfitt fyrir foreldra að taka á því þegar börn þeirra eru gerendur í slíkum málum. Það sé hins vegar gríðarlega mikilvægt að gerendur fái aðstoð og stuðning rétt eins og þolendur.

„Ég held það sé gríðarlega erfitt að takast á við það [að barnið þitt sé gerandi í svona máli]. Ég er ekkert endilega viss um að það sé mikið auðveldara en ef barnið er þolandi. Það er bara gríðarlega erfitt þegar maður kemst að því að börnin manns hafi verið þátttakendur í svona ofbeldi og ég held það sé mikilvægt að ef það gerist að maður taki skrefin út frá því.“

„Maður verður að trúa því stundum að börn gera heimskulega hluti og þau geta gert alls konar hluti og það er hægt að læra af þeim og það er hægt að vinna úr því eins og við höfum talað mikið um með kynferðisofbeldið, að það fái hjálp og fái stuðning og það er hægt að vinna úr svona, hvort sem það er þolandi eða gerandi,“ segir Heiða.

Það er mjög mikilvægt varðandi gerendurna að þeir fái líka stuðning og hjálp því það er ekki víst að allir átti sig endilega á því hversu alvarlegt þetta er og hversu slæmar og alvarlegar afleiðingar þetta getur haft. Ég held það sé mikilvægt að við foreldrar ræðum um það og pössum líka að börnin okkar séu ekki að deila svona efni því það gerir líka þessa tegund af ofbeldi vinsælli“

Rætt var við Jón Magnús Kristjánsson yfirlækni á bráðamóttöku um ofbeldi barna í Reykjavík síðdegis í gær. Hægt er að hlusta á viðtalið við Jón í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Með vel­ferð barna að vopni

Sem nemandi 10. bekkjar í Kársnesskóla í Kópavogi hef ég verið í fjarnámi í tvo mánuði sökum verkfalla og kórónuveirunnar. Mér hefur gengið sæmilega að aðlagast ástandinu en það á ekki við alla.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.