Innlent

Þór­ólfur: Eigum ekki von á hinum nýju og af­kasta­meiri tækjum fyrr en í októ­ber

Atli Ísleifsson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fyrir utan Stjórnarráðshúsið fyrir fund sinn með forsætisráðherra í hádeginu.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fyrir utan Stjórnarráðshúsið fyrir fund sinn með forsætisráðherra í hádeginu. Skjáskot

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ekki sé von á hinum nýju og afkastameiri tækjum til skimunar til landsins fyrr en í október. Hann mætti á fund forsætisráðherra í Stjórnarráðshúsinu í hádeginu til að ræða nýtt fyrirkomulag varðandi skimun á landamærum eftir að Íslensk erfðagreining grendi frá því í gær að skimun hjá þeim yrði hætt innan fárra daga.

Þórólfur sagði til stæði að ræða við veirufræðideildina og sjá hvaða möguleikar séu í stöðunni. Staðan hjá veirufræðideild Landspítalans nú, eins og þau hafi sjálf gefið út, sé í kringum fimm hundruð sýni á dag. „En það er verið að skoða ýmsar útfærslur sem að ræðst sennilega síðar í dag og veirufræðideildin er að skoða betur,“ sagði Þórólfur fyrir fundinn.

Fá tilfelli

Þórólfur var spurður út í orð Sigurðar Guðmundssonar, fyrrverandi landlæknis, í Bítinu í morgun um að rétt væri að hætta skimunum á landamærum.

„Þetta var náttúrulega lagt upp þannig, að við værum að kanna þetta. Annars hefðum við rennt blint í sjóinn og ekki vitað neitt hvað við værum að gera. Við erum búin að kanna þetta og það er alveg rétt, þetta eru mjög fá sýni. Þetta eru tíu einstaklingar sem fundist með smit, af rúmlega 23 þúsund sýnum. Sem er mjög lágt. En eins og áður hefur komið fram tel ég að við þurfum að fá lengri tíma í þetta,“ segir Þórólfur.

„Ég hef lagt til að við skoðum þetta áfram út júlí og ég tel að við þurfum að gera það til að geta ákveða áframhaldið. Á einhverjum tímapunkti þurfum við að hætta þessu eða breyta áherslum. Það er það sem við höfum sagt allan tímann, en ég held að við þurfum að fá aðeins meiri upplýsingar.“

Einhver fleiri lönd sem gætu bæst í hóp Færeyinga og Grænlendinga að við myndum ekki taka sýni frá vegna góðrar stöðu heima fyrir?

„Það er alveg möguleiki og það er hluti af því sem við þurfum að skoða. Af því að þetta eru það fáir sem hafa greinst með jákvætt sýni þá er erfitt að koma með einhverja tölfræði út úr því. Þetta eru ekki það margir sem betur fer […] Ég held að við þurfum að halda þessu áfram út júlí eins og við vorum búin að ákveða. Það sem við höfum séð hingað til lofar mjög góðu. Við þurfum líka að geta breytt áherslum. Nú fara að koma ríki utan Schengen sem fara að banka á dyrnar og við þurfum að vera tilbúin að taka á því með vitrænum hætti,“ segir Þórólfur.


Tengdar fréttir

Starfsfólk veirufræðideildar fundar um hina óvæntu stöðu

Yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans segir deildina ekki í stakk búna til að taka, óvænt, við keflinu af Íslenskri erfðagreiningu í byrjun næstu viku. Hann segir ákvörðun forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar hafa komið sér í opna skjöldu en mun eftir hádegi funda með starfsfólki veirufræðideildar um stöðuna sem upp er komin og næstu skref.

Starfsfólk veirufræðideildar fundar um hina óvæntu stöðu

Yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans segir deildina ekki í stakk búna til að taka, óvænt, við keflinu af Íslenskri erfðagreiningu í byrjun næstu viku. Hann segir ákvörðun forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar hafa komið sér í opna skjöldu en mun eftir hádegi funda með starfsfólki veirufræðideildar um stöðuna sem upp er komin og næstu skref.

Starfsfólk veirufræðideildar fundar um hina óvæntu stöðu

Yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans segir deildina ekki í stakk búna til að taka, óvænt, við keflinu af Íslenskri erfðagreiningu í byrjun næstu viku. Hann segir ákvörðun forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar hafa komið sér í opna skjöldu en mun eftir hádegi funda með starfsfólki veirufræðideildar um stöðuna sem upp er komin og næstu skref.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.