Lífið

Auddi fagnaði fertugsafmælinu með pompi og prakt

Andri Eysteinsson skrifar
Auðunn fagnaði fertugu á toppi Hörpunnar.
Auðunn fagnaði fertugu á toppi Hörpunnar. IG/AudunnBlondal

Leikarinn, skemmtikrafturinn og útvarpsmaðurinn Auðunn Blöndal fagnaði fertugsafmæli sínu með pompi og prakt með sínum nánustu í fjölmennu teiti sem haldið var í Hörpunni í gærkvöldi. Aðstæður til veisluhalda voru til fyrirmyndar enda veður með besta móti.

Auðunn sem stýrir útvarpsþættinum FM95Blö á FM957 og leikur í væntanlegum þáttum Stöðvar 2, Júrógarðinum, fékk til sín einvalalið íslenskra tónlistarmanna til þess að halda uppi stuðinu í Hörpunni. Auðunn eignaðist nýlega sitt fyrsta barn með kærustu sinni, fyrirsætunni Rakeli Þormarsdóttur.

Auðunn hafði orð á því í Instagram-story að skipulagning afmælisveislunnar hafi reynt meira á samband sitt heldur en frumburðurinn, enda var öllu tjaldað til og veislan hin glæsilegasta.

Grínistinn Pétur Jóhann Sigfússon, sem starfaði með Audda eins og frægt er í Strákunum og 70 Mínútum söng afmælissönginn fyrir Auðunn áður en hin eina sanna Ragnhildur Gísladóttir steig á svið ásamt Halldóri Gunnari Pálssyni.

Halldór hélt áfram að spila undir þegar æskufélagi Auðuns frá Sauðárkróki, Sverrir Bergmann, steig á svið.

Þá heiðruðu hafnfirsku tónlistarbræðurnir Jón og Friðrik Dór Jónssynir gesti með nærveru sinni.

Þegar leikar virðast hafa tekið að æsast í afmælisveislunni steig Auðunn sjálfur á svið ásamt hinum hluta eins þekktasta tvíeykis Íslands,  Sveppa.

Þá léku Herra Hnetusmjör og Aron Can fyrir dansi og þeim til halds og trausts var plötusnúðurinn Egill Spegill.

Flestir hefðu eflaust talið að hér væri upptalningu lokið á þeim tónlistarmönnum sem spiluðu í afmælisveislunni en svo er alls ekki því Ingó Veðurguð og Páll Óskar voru einnig í þeim hópi.

Mikill fjöldi gesta var samankominn í Hörpunni og deildu þeir myndum frá herlegheitunum með myllumerkinu #Auddi40. Hér að neðan má sjá nokkrar af þeim myndum sem deilt var.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.