Innlent

Tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga samstarfskonu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa nauðgað þáverandi samstarfskonu hans á heimili hennar í Kópavogi árið 2016. Maðurinn þarf að greiða konunni þrjár milljónir króna í miskabætur.

Nauðgunin átti sér stað eftir starfsmannasamkvæmi en að því loknu héldu nokkrir starfsmenn á veitingastað, þar á meðal maðurinn og konan. Fyrir dómi sagðist konan hafa boðið manninum og öðrum vinnufélaga þeirra að gista heima hjá sér, þar sem þeir ættu heima í talsverðri fjarlægð. Hinn vinnufélaginn vildi hins vegar ekki gista og sagði konan að hún hafi þá ekki kunnað við að draga boðið til baka.

Varð svo úr að þau héldu heim til konunnar. Fyrir dómi sagðist hún síðar hafa vaknað í engum fötum við það að maðurinn hafi verið að hafa við hana samfarir. Sagðist hún hafa beðið hann um að hætta, án árangurs.

Maðurinn vildi hins vegar meina að hann hefði spurt konuna hvort hún væri til í „netflix og chill“ sem jafngilti því að spyrja viðkomandi hvort hann vildi hafa kynmök, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms. Sagði hann konuna hafa sagt nei við því en já þegar hann spurði hana hvort hún vildi kúra. Eitt hafi leitt að öðru sem hafi endað með kynmökum þeirra.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að innbyrðis samræmi hafi gætt hjá konunni varðandi öll meginatriði málsins, auk þess sem að ýmis atriði og sönnunargögn renni eindregnum stoðum undir framburð hennar. Að mati héraðsdóms var framburður mannsins „í sjálfu sér ekki ótrúverðugur“ þó að sumt hafi haft yfir sér sérkennilegan blæ, líkt og segir í dómi héraðsdóms.

Taldi héraðsdómur að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði nauðgað konunni. Var hann því dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi auk þess sem hann þarf að greiða henni þrjár milljónir í miskabætur auk málskostnaðar, 3,6 milljónir króna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.