Innlent

Bifhjólasamtök efna til mótmæla við Vegagerðina

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
visir-img
Foto: Hanna Andrésdóttir

Sniglar, Bifhjólasamtök Lýðveldisins, hafa efnt til mótmæla við húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni, næstkomandi þriðjudag. Mótmælin snúa að hættulegum vegköflum á vegum landsins og verður úrbóta krafist.

Búið er að stofna Facebook-viðburð um mótmælin. Lýsing á efni viðburðarins er á þessa leið:

„Í ljósi atburðar sem kostaði mannslíf, erum við mótorhjólafólk búin að fá nóg. Við krefjumst þess að Vegagerðin á Íslandi muni þegar í stað gera úrbætur á þeim vegköflum sem skapa hafa mikla hættu víðsvegar um landið. Mótmælin verða þögul en sterk, sýnum samstöðu í verki.“

Þó ekki sé sagt berum orðum hvaða atburðar er vísað til, má ætla að um sé að ræða banaslys sem varð á Kjalarnesi í dag, þar sem ökumaður og farþegi bifhjóls létust þegar þeir lentu í árekstri við húsbíl.

Nýtt slitlag var á vegkaflanum sem slysið varð á, og var þar sérstaklega sleipt af þeim sökum. Rannsókn á slysinu stendur nú yfir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.