Innlent

Höfðingleg píanógjöf til Hússins á Eyrarbakka

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Íris og Glúmur að spila á píanóið í Húsinu á Eyrarbakka, sem er frá 1855.
Íris og Glúmur að spila á píanóið í Húsinu á Eyrarbakka, sem er frá 1855. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Húsinu á Eyrarbakka hefur borist höfðingleg gjöf en það er píanó frá 1855. Píanóið var upphaflega í Húsinu í 35 ár og er nú komið heim aftur.

Húsið á Eyrarbakka er hluti af Byggðasafni Árnesinga en hlutverk þess er að safna, skrásetja, varðveita og sýna muni, sem tengjast sögu Árnessýslu. Húsið, sem byggt var árið 1765 fyrir danska einokunarkaupmenn er í hópi elstu bygginga landsins en byggðasafnið tók við Húsinu árið 1995 að loknum viðamiklum viðgerðum. Nýlega barst Húsinu glæsileg gjöf en það er mjög merkilegt píanó og eitt af þeim elstu í landinu. Píanóið er reyndar rammfalskt en það mun jafna sig.

„Það er verið að gefa Byggðasafni Árnesinga fyrsta píanóið, sem kom í Húsið á Eyrarbakka og það er smíðað 1855,“ segir Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga.

Glúmur Gylfason, tónlistarmaður á Selfossi á heiðurinn af því að píanóið er nú komið aftur í Húsið en afi hans og amma áttu píanóið í þau 35 ár, sem það var í Húsinu en það voru þau hjónin Helga Friðrikka Vigfúsdóttir og Siggeir Torfason.

„Þetta er frábær gjöf, það er mikill fengur fyrir safnið að fá píanóið og ég þarf að endurskrifa sögu Hússins um einn kafla,“ segir Lýður.

„Ég æfði mig á þetta píanó þegar ég var strákur, krakki hjá ömmu minni, hún átti það. Það er hægt að spila svona músík á það í dag en það er spennandi að vita þegar búið verður að stemma það en það þarf að standa hérna dálítið fyrst og venjast þessu húsi,“segir Glúmur.

„Þetta er mjög merkilegur gripur en það er allt öðruvísi en venjulegt píanó, svolítið öðruvísi hljómur, það er mjög gaman að spila á það,“ segir Íris Beata Dudziak 17 ára barnabarn Glúms

Lýður Pálsson, safnvörður er hæstánægður með þá höfðinglegu gjöf, sem Byggðasafn Árnesinga var að fá, píanó frá 1955, sem er komið aftur „heim“ í Húsið.Magnús Hlynur Hreiðarsson.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×