Innlent

Hafa ekki enn borið kennsl á hin látnu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Húsið, sem stendur á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu, var gjörónýtt eftir brunann.
Húsið, sem stendur á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu, var gjörónýtt eftir brunann. Vísir/Vilhelm

Kennslanefnd ríkislögreglustjóra vinnur enn að því að bera kennsl á þau þrjú sem létust í eldsvoða á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í vesturbæ Reykjavíkur á fimmtudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þrjú létust af völdum eldsvoðans, tvö fundust látin í húsinu sem brann, en þriðja andlátið var skráð á sjúkrahúsi. Þá liggja tveir til viðbótar illa slasaðir á Landspítalanum vegna brunans.

Um þrjú hundruð manns söfnuðust saman á Austurvelli í hádeginu í dag til þess að minnast þeirra sem létust í brunanum og mótmæla slæmum aðbúnaði erlends verkafólks á Íslandi. Gekk hópurinn að vettvangi brunans og fjöldi fólks lagði þar blóm við húsið sem brann. Slökkviliðsmenn mættu einnig niður á Austurvöll í dag til að sýna mótmælendum samstöðu.

Þó ekki sé enn búið að bera kennsl á þau sem létust sagði Jakub Pilch, ræðismaður Póllands á Íslandi, að hinir látnu hafi líklegast verið pólskir ríkisborgarar á þrítugs- og fertugsaldri. Þeir hafi verið tiltölulega nýkomnir hingað til lands.

Þá hafa íbúar Vesturbæjarins efnt til kyrrðarfundar við húsið klukkan 18, annað kvöld, til þess að votta þeim sem létust virðingu sína og láta í ljós samúð með aðstandendum þeirra. Þetta kemur fram á Facebook-síðunni Íbúasamtök Vesturbæjar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.