Erlent

Ekkert sak­næmt við and­lát Ste­ve Bing

Atli Ísleifsson skrifar
Steve Bing árið 2006.
Steve Bing árið 2006. Getty

Dánardómstjóri í Los Angeles hefur staðfest að kvikmyndaframleiðandinn Steve Bing hafi svipt sig lífi. Hinn 55 ára Bing, sem einnig var þekktur fyrir að hafa verið fyrrverandi kærasti og barnsfaðir leikkonunnar og fyrirsætunnar Elizabeth Hurley, fannst látinn fyrir framan háhýsi í Los Angeles á mánudaginn.

Bing var einnig handritshöfundur og þekktur fyrir aðkomu sína að myndunum Get Carter, Kangaroo Jack, Hotel Noir, Rules Don‘t Apply og Every Breath. Þá fjármagnaði hann gerð mynda á borð við Polar Express og Rolling Stones tónleikamyndina Shine a Light.

Hurley hefur minnst Bing á samfélagsmiðlum þar sem hún segir tíma þeirra saman hafa verið góðan og að hann hafi verið „yndislegur og góður maður“. Þau hafi á síðasta ári orðið náin á ný og að þau hafi síðast rætt saman á átján ára afmælisdegi sonar þeirra.

Bing auðgaðist mikið þegar hann var átján ára gamall og fékk 600 milljónir dala í arf frá afa sínum, fasteignamógúlnum Leo Bing. Steve Bing mar mikill stuðningsmaður og vinur Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og gaf á sínum tíma um 10 milljónir dala í kosningasjóði hans. Þá fjármagnaði hann ferð Clinton til Norður-Kóreu árið 2009 þar sem forsetinn fyrrverandi samdi um lausn tveggja bandarískra fréttamanna úr haldi norður-kóreskra yfirvalda.

Bing lætur eftir sig tvö börn, átján ára son sem hann átti með Liz Hurley og tvítuga dóttur sem hann eignaðist með tennisspilaranum Lisa Bonder.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×