Í dag var formlega sett af stað verkefnið #íslenskflík sem er framlag Fatahönnunarfélags Íslands til HönnunarMars í ár og er í formi vefsíðu, innsetningar og vitundarvakningar á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #íslenskflík. Vefsíðan www.islenskflik.is er heimastöð verkefnisins og fór hún í loftið rétt í þessu.
„Við erum að minna á íslenska fatahönnun með þessu samfélagsmiðlaátaki,“ segir Erla Björk Baldursdóttir ein talskona verkefnisins í samtali við Vísi. #íslenskflík miðar að því að kynna íslenska fatahönnun og vekja athygli á því framúrskarandi hugviti og þeim fjölbreyttu vörum sem hér er að finna.
„Staldraðu við og skoðaðu íslenska fatahönnun næst þegar þú fjárfestir í flík.“

Á vefsíðunni getur fólk sótt sér upplýsingar um verkefnið sjálft, fræðiefni um íslenska fatahönnun ásamt lista yfir íslenska fatahönnuði og fatamerki. Markmiðið er að sýna breiddina og úrvalið í íslenskri fatahönnun.
Sérstakur myndaþáttur var unnin fyrir átakið en þar er íslenska flíkin í forgrunni. Myndaþátturinn var í listrænni stjórnun Ellenar Loftsdóttur og ljósmyndarans Marsý Hildar Þórsdóttur. Ljósmyndaverkin verða aðgengileg gestum og gangandi á HönnunarMars, sem hefst formlega í dag. Verkin verða í formi innsetningar í gluggum við Skólavörðustíg 20, Laugaveg 30A og Hverfisgötu 94-96.
„Við hvetjum fólk til að kíkja í skápinn sinn og sjá hvaða íslensku hönnun það á og deila mynd af því á samfélagsmiðlum með merkinu #íslenskflík,“ segir Erla Björk.
Einn mikilvægasti liður verkefnisins er virkjun, notkun og dreifing myllumerkisins #íslenskflík. Myllumerkið er hugsað sem hvatning fyrir alla þá sem vilja taka þátt í verkefninu með okkur. Flíkin getur verið hönnuð, þróuð eða framleidd á Íslandi, eftir því sem við á. Með átakinu vill Fatahönnunarfélag Íslands hvetja Íslendinga til að staldra við og skoða íslenskan fatnað næst þegar þeir fjárfesta í flík.
HönnunarMars 2020 átti að fara fram í lok marsmánaðar eins og undanfarin ellefu ár, en vegna Covid-19 faraldursins var hátíðinni frestað til 24.-28. júní. Á hátíðinni leiðir framsækin hönnun og nýjungar saman sýnendur og gesti.
HönnunarMars fer fram með breyttu sniði í ár en tugir hönnuða taka þátt og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Nánar verður fjallað um hátíðina hér á Vísi næstu daga. Einhverjir viðburðir eru opnir lengur en þessa fimm daga og nánar má lesa um dagskránna á vef HönnunarMars.