Innlent

Seyð­firðingar af­slappaðir vegna komu ferða­manna með Nor­rænu

Telma Tómasson skrifar
Norræna við hafnarbakkann á Seyðisfirði. Myndin er úr safni.
Norræna við hafnarbakkann á Seyðisfirði. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Bæjarstjóri Seyðisfjarðar segir heimamenn afslappaða gagnvart komu erlendra ferðamanna til bæjarins. Norræna lagðist að bryggju í morgun og gengur skimun vegna kórónuveirunnar vel.

Norræna fylgir alla jafna mjög vel áætlun, og engin undantekning var þar á í morgun og lagðist skipið að bryggju á Seyðisfirði rétt fyrir klukkan níu. Um 460 farþegar voru um borð, þar af um 160 Færeyingar sem eru undanþegnir skimun. Fjórtán manna heilbrigðisteymi var í startholunum að hefja vinnu sína.

Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði, segir að það hafi verið stór hópur af heilbrigðisstarfsfólki sem hafi komið til þeirra um hálf níu. 

„Allir voru skráðir inn og slíkt. Mjög frambærilegur og faglegur hópur sem er þarna á ferðinni. Þau voru bara tilbúin að fara um borð um leið og búið var að opna skipið, í lögreglufylgd. Þannig að þetta gengur allt saman mjög vel fyrir sig,“ segir Rúnar.

Kom þetta fólk að sunnan?

„Nei, það kom hér að austan í þetta skiptið. Það stóð til að það kæmi að sunnan, var eitthvað vesen með flutning þannig að þetta er heilbrigðisstarfsfólk héðan að austan,“ segir Rúnar.

Farþegafjöldinn meiri en í síðustu viku

Linda Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line, segir farþegafjöldann mun meiri en í síðustu viku, en skimun gangi vel og samkvæmt áætlun. Rúnar segir að skimunin hafi verið vel undirbúin og þrjá til fjórar stöðvar settar upp í skipinu.

„Þetta veltur mikið á því að farþegar séu búnir að skrá sig inn í Covid-skráningarkerfið þannig að ef það hefur gengið eftir ætti þetta allt að vera í góðum málum.“

Farþegar Norrænu leggja yfirleitt af stað beint í ferðalagið sitt, en þó dokar fólk einnig við á staðnum og segist bæjarstjórinn á Seyðisfirði ekki hafa orðið vör við að íbúr hafi miklar áhyggjur af hugsanlega covid-smituðum einstaklingum. Allir séu þó mjög meðvitaðir um hvernig huga skuli að sóttvörnum.

„Ja, ég hef ekki orðið vör við annað en að bæjarbúar séu þokkalega afslappaðir gagnvart þessu. Ég held að allir séu að passa sig að sótthreinsa og passa sóttvarnir gagnvart sjálfum sér. Á meðan fólk gerir það held ég að þetta sé allt í lagi,“ segir Aðalbjörg Borgþórsdóttir, bæjarstjóri Seyðisfjarðar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×