Innlent

Fimmtán milljóna sekt vegna Airbnb-útleigu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Konan leigði út gistirými í gegnum Airbnb
Konan leigði út gistirými í gegnum Airbnb vísir/vilhelm

Yfirskattanefnd hefur úrskurðað að kona sem leigði út gistirými í gegnum Airbnb þurfi að greiða tæplega fimmtán milljóna króna sekt fyrir að hafa vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum tekjur af útleigu húsnæðis til ferðamanna á árunum 2016, 2017 og 2018.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá en í úrskurði Yfirskattanefndar kemur fram að sektin er einnig tilkomin þar sem viðkomandi hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu á sömu árum.

Konunni var gefið að sök að hafa staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2017 til og með 2019, vegna rekstraráranna 2016 til og með 2018, með því að vanrækja að gera grein fyrir rekstrartekjum sínum sem til voru komnar vegna sjálfstæðrar starfsemi hennar, samtals að fjárhæð 15,3 milljóna króna.

Þá var henni gefið að sök að hafa vanrækt að tilkynna ríkiskattstjóra um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína. Að mati skattrannsóknarstjóra nam vanframtalin skattskyld velta samtals 28,2 milljónum og vanframtalinn útskattur nam samtals 3,1 milljón.

Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra staðfesti konan að tekjurnar sem voru til skoðunar hjá yfirvöldum hafi verið greiðslur frá Airbnb vegna útleigu húsnæðis. Sagði hún að bæði hún og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi lent í fjárhagserfiðleikum og byrjað að leigja herbergi út, síðan hafi fleiri bæst við.

Í úrskurðinum segir að við rannsókn málsins og meðferð þess hafi ekkert komið fram sem hafi gefið tilefni til þess að miða við aðrar fjárhæðir en komu fram við rannsókn skattrannsóknarstjóra. Þarf konan að greiða sekt sem nemur 14,9 milljónum, þar af ellefu milljónir til ríkissjóðs og 3,9 milljónir til borgarsjóðs Reykjavíkur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.