Fótbolti

„Þeir munu fá martraðir um hann“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson í leiknum í gær.
Jón Dagur Þorsteinsson í leiknum í gær. vísir/getty

Flestar fyrirsagnirnar eftir leik FC Midtjylland og AGF í dönsku úrvalsdeildinni í gær fjölluðu um Íslendinginn, Jón Dag Þorsteinsson, hann lék á alls oddi í leiknum. HK-ingurinn skoraði þrjú mörk og lagði upp eitt.

Midtjylland er á toppi deildarinnar og þegar strákarnir frá Herning voru komnir í 3-1 í gærkvöldi bjuggust ekki margir við því að Jón Dagur og félagar myndu snúa taflinu sér í við. Þeir gerðu það þó og sigurmarkið kom á 95. mínútu eftir stoðsendingu frá Jóni Degi.

BT valdi Jón Dag eðlilega mann leiksins en hann fékk níu í einkunn hjá miðlinum.

„Hann er maðurinn sem þeir munu syngja um í Árósum í kvöld og einnig maðurinn sem þeir munu fá martraðir um í Herning,“ segir í umsögninni um Jón Dag.

„Mer þremur mörkum tryggði hann að AGF keyrði heim frá Herning með fullt hús, þrátt fyrir að þetta hafi lengi litið út fyrir að þeir myndu fara tómhendir þaðan. „Gleymiði þessu,“ sagði Þorsteinsson og gleðin braust eðlilega út hjá honum eftir síðasta markið, eins og enginn væri morgundaginn. Hann kóróna leik sinn með stoðsendingu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×