Erlent

Helsti and­stæðingur Lúka­sjen­kó hand­tekinn í að­draganda kosninga

Atli Ísleifsson skrifar
Viktor Babariko var einu sinni forstjóri Belgazprombank, hvíttrússnesks dótturfélags rússneska orkurisans Gazprom.
Viktor Babariko var einu sinni forstjóri Belgazprombank, hvíttrússnesks dótturfélags rússneska orkurisans Gazprom. AP

Lögregla í Hníta-Rússlandi hefur handtekið helsta andstæðing Alexander Lúkasjenkó forseta, en forsetakosningar eru fyrirhugaðar í landinu í ágúst.

Viktor Babariko, 56 ára gamall bankamaður, var handtekinn vegna gruns um fjármálaglæpi, en hvítrússnesk yfirvöld hafa handtekið fjölda stjórnarandstæðinga síðustu misserin. Talsmaður yfirvalda saka Babariko um að vera í slagtogi við „rússneska strengjabrúðumeistara“ og hafa stundað ólöglegt athæfi.

Mörg hundruð manns hafa mótmælt handtökunum á götum höfuðborgarinnar Minsk.

Lúkasjenkó hefur gegnt embætti forseta í landinu frá árinu 1994 og sækist nú eftir að stýra landinu sjötta kjörtímabilið.

Þrítugur sonur Babariko, Eduard, var einnig handtekinn í aðgerðum lögreglu, en hann hefur stýrt kosningabaráttu föður síns. Feðgarnir voru handteknir þegar þeir voru í þann mund að afhenda undirskriftir vegna framboðsins.

Babariko var einu sinni forstjóri Belgazprombank, hvíttrússnesks dótturfélags rússneska orkurisans Gazprom.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×