Erlent

Sam­einingar­ráð­herra Suður-Kóreu stígur til hliðar vegna deilna við norðrið

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kim Yeon-chul, sameiningarráðherra Suður-Kóreu, sagði af sér vegna vaxandi ólgu milli ríkisins og Norður-Kóreu.
Kim Yeon-chul, sameiningarráðherra Suður-Kóreu, sagði af sér vegna vaxandi ólgu milli ríkisins og Norður-Kóreu. Getty/Chung Sung-Jun

Suðurkóreski sameiningarráðherrann hefur tilkynnt afsögn sína vegna snöggaukinnar ólgu milli landsins og Norður-Kóreu. Ráðherrann, Kim Yeon-chul, tók einnig ábyrgð á vaxandi spennu milli ríkjanna.

Í gær stigmagnaðist spennan milli ríkjanna tveggja þegar norðurkóreski herinn sprengdi samvinnustofnun Kóreuríkjanna á landamærunum í loft upp. Þá hefur norðurkóreski herinn einnig lýst því yfir að hann muni senda herlið á hlutlausa svæðið sem aðskilur löndin tvö og hefur verið síðan vopnahléssamningarnir voru undirritaðir á sjötta áratugi síðustu aldar.

Fyrr í dag, miðvikudag, útskýrðu yfirvöld í Pyongyang hvers vegna þau hefðu ákveðið að sprengja upp samvinnustofnunina í Kaesong. Í fréttagrein sem birtist í fréttablaði norðurkóreska ríkisins var suðrið sakað um að hafa brotið samninga sem gerðir voru árið 2018. Systir Kim Jong-un, Kim Yo-jong, kallaði þá forseta suðursins „þjón Bandaríkjanna.“

Deilur milli ríkjanna tveggja hafa magnast undanfarið meðal annars vegna þess að norðanmenn fullyrða að fólk úr suðrinu sé að fara inn á hlutlausa svæðið í óleyfi til að koma áróðursplöggum til Norður-Kóreu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.