Innlent

Jarðskjálfti af stærðinni 3,5 við Grindavík

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fjallið Þorbjörn sést hér bak við Bláa lónið.
Fjallið Þorbjörn sést hér bak við Bláa lónið. Vísir/VIlhelm

Jarðskjálfti af stærðinni 3,5 varð á níunda tímanum í kvöld um 3,7 kílómetrum norður af Grindavík. Mælingar benda til þess að landris sé hafið við fjallið Þorbjörn að nýju.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar segir einnig að skjálftinn sé hluti af jarðskjálftahrinu sem stendur yfir í nágrenni Grindavíkur, en hrinan hefur verið viðvarandi síðan 30. maí.

Um 2.000 skjálftar verið staðsettir þar síðan þá, aðallega smáskjálftar, en nokkrir stærri skjálftar hafa einnig orðið á þessu svæði og fundist í Grindavík.

Land hefur risið um 12 sentimetra

Í samtali við Vísi segir Hulda Rós Helgadóttir náttúruvársérfræðingur að jarðskjálftavirkni hafi verið viðvarandi á svæðinu, en hafi færst í aukana síðastliðna nótt. 

Stærsti skjálftinn hafi síðan orðið klukkan 20:27, en hann var eins og áður segir 3,5 að stærð.

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að mælingar bendi til þess að landris sé hafið að nýju við fjallið Þorbjörn.

Hulda segir þá að land hafi risið um 12 sentimetra á svæðinu síðan í janúar. Um sé að ræða þriðja kvikuinnskotið á þessu svæði síðan í janúar og að líkanareikningur bendi til þess að það sé á svipuðu dýpi og fyrri innskot, eða á þriggja til fjögurra kílómetra dýpi.

Óvissustig vegna landriss er enn í gildi hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, en hér má nálgast fundargerð vísindaráðs almannavarna vegna Reykjanessskaga og Grímsvatna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×