Innlent

Vilja reisa nýtt hús­næði Mennta­vísinda­sviðs innan fjögurra ára

Andri Eysteinsson skrifar
Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í dag.
Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í dag. Aðsend

Nýju húsnæði Háskóla Íslands sem áætlað er að rísi á svæði Vísindagarða skólans í Vatnsmýri á næstu fjórum árum er ætlað að verða framtíðarhúsnæði Menntavísindasviðs HÍ. Þetta kemur fram í viljayfirlýsingu sem undirrituð var á ársfundi HÍ í hátíðarsal skólans í morgun.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands undirritaði yfirlýsinguna ásamt Kolbrúnu Þ. Pálsdóttur forseta Menntavísindasviðs og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.

Aðstaða menntavísindasviðs hefur verið til húsa í Stakkahlíð og í Skipholti frá sameiningu HÍ og Kennaraháskóla Íslands árið 2008. Húsnæðið þykir ekki henta og er því áætlað að byggja nýtt húsnæði fyrir deildina.

„Ég er þess fullviss að flutningur Menntavísindasviðs muni stuðla að heilsteyptara háskólasamfélagi, samhæfðari stoðþjónustu við bæði kennara og nemendur sviðsins og betra aðgengi að félagslífi fyrir nemendur í menntavísindum,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.

Stefnt er að því að byggingin rísi á lóðinni sem merkt er með tölunni 9.Aðsend

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ sagði að stefnt hafi verið að því frá sameiningu HÍ og KHÍ að starfsemi yrði flutt á meginsvæði Háskólans í Safamýri. Málið hafi hins vegar ekki komist á rekspöl fyrr en nú. „Það er von mín að nýbygging sviðsins verði tilbúin innan fjögurra ára. Hún mun leggja grunn að betri samþættingu fræðigreina innan Háskóla Íslands, efla Háskóla Íslands, kennaramenntun og menntavísindi og verða íslensku skólakerfi og samfélagi til heilla,“ sagði Jón Atli.

Menntamálaráðherra sagði að með nýrri og nútímalegri aðstöðu yrði fræðastarf Menntavísindasviðs enn öflugra. Sviðið gegndi lykilhlutverki í menntakerfinu og nú eigi að blása í herlúðra og bæta um betur. „Kerfið okkar er gott í grunninn, en við ætlum að bæta um betur og bjóða fyrsta flokks menntun fyrir alla, sem bæði nýtist einstaklingum og samfélaginu í heild,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×