Fótbolti

Gareth Southgate enn að plana það að mæta með enska liðið á Laugardalsvöllinn í september

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney reynir að stoppa Gylfa Þór Sigurðsson í leiknum fræga í Nice á EM 2016 í Frakklandi. Ísland vann 2-1 og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Evrópumótsins.
Wayne Rooney reynir að stoppa Gylfa Þór Sigurðsson í leiknum fræga í Nice á EM 2016 í Frakklandi. Ísland vann 2-1 og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Evrópumótsins. Getty/Evrim Aydin

Mikil óvissa er í kringum alla fótboltalandsleiki í haust en það á enn eftir að spila umspilsleikina um sæti á EM og Þjóðadeildin á byrja í september.

Gareth Southgate ræddi stöðuna við Guardian í tilefni af því að Knattspyrnusamband Evrópu ætlar að funda um framhaldið hjá landsliðunum í næstu viku.

Knattspyrnusamband Evrópu setti það í forgang að knattspyrnusamböndin myndu klára sínar deildir í sumar og í framhaldi af því yrðu Evrópukeppnir félagsliða kláraðar í ágúst.

Landsliðsmálin hafa því setið aðeins á hakanum opinberlega þó UEFA-menn séu örugglega að fara vel yfir þau mál á bak við tjöldin.

Gareth Southgate var í viðtalinu meðal annars spurður út í Þjóðadeildina þar sem Englendingar eru í riðli með Íslandi, Belgíu og Danmörku. Enska landsliðið átti eins og íslenska landsliðið að spila tvo leiki í september, tvo leiki í október og tvo leiki í nóvember.

„Ég er bjartsýnni núna en ég var líklega fyrir sex vikum síða af því að það lítur út eins og að baráttan við veiruna sé á leið í rétta átt,“ sagði Gareth Southgate við Guardian.

„Það var vissulega tímapunktur þar sem ég hélt að það yrðu engir landsleikir spilaði fyrir jól. Þýska bundesligan kom hlutunum á hreyfingu og þá lítur það betur út fyrir fótboltann að koma til baka í okkar landi,“ sagði Southgate.

„Leikjadagatalið er samt mjög þétt og það myndi búa til mjög erfiða stöðu ef við mundum tapa einu landsleikjahléi og menn þyrftu að fara troða öllum þeim leikjum inn á milli hinna. Það væri samt mögulegt því HM 2022 fer ekki fram fyrr en um veturinn og það hefur gefið okkur smá andrými,“ sagði Southgate.

„Á UEFA fundinum sem ég var á það miðaðist allt við það að landsleikahléin héldu sér í september, október og nóvember. Flækjustigið hefur auðvitað aukist af því að deildirnar þurfa að byrja aftur á þessum tíma. Það er enn margt óljóst og menn verða síðan að taka ferðalögin inn í dæmið,“ sagði Southgate.

„Við erum í riðli í Þjóðadeildinni með Íslandi og Ísland á eftir að spila umspilsleiki fyrir EM. Í mars á síðan undankeppni HM að hefjast. Það gæti því haft mikil áhrif ef við missum út einn gluggann,“ sagði Southgate.

„Við plönum samt allt hjá okkur miðað við það að við séum að fara að spila í september en að sama skapi veit ég að það er langt frá því að vera öruggt að leikirnir fari fram þá,“ sagði Gareth Southgate við Guardian.

Fyrsti leikur Englendinga í Þjóðadeildinni átti að vera leikurinn á móti Íslandi á Laugardalsvellinum í byrjun september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×