Fótbolti

Suarez leikfær þegar La Liga hefst að nýju

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Luis Suarez kom til Barcelona árið 2014
Luis Suarez kom til Barcelona árið 2014 Vísir/Getty

Úrúgvæski markahrókurinn Luis Suarez er búinn að jafna sig eftir aðgerð sem hann gekkst undir í byrjun þessa árs og verður klár í slaginn þegar spænska úrvalsdeildin hefst að nýju eftir Covid-19 hlé um næstu helgi.

Suarez gekkst undir aðgerð á hné þann 12.janúar síðastliðinn og var í kjölfarið greint frá því að hann myndi ekki leika meira með liðinu á yfirstandandi leiktíð.

Kórónuveirufaraldurinn geisaði af fullum þunga á Spáni og því frestaðist deildarkeppnin þar í landi líkt og í nær öllum löndum Evrópu sem gerir það að verkum að Suarez getur hjálpað Barcelona á lokasprettinum í deildinni.

Suarez er algjör lykilmaður í sóknarleik spænska stórveldisins og hefur skorað 13 mörk í 24 leikjum á yfirstandandi leiktíð. 

Barcelona hefur tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar þegar ellefu umferðum er ólokið en erkifjendurnir í Real Madrid sitja í öðru sætinu og ljóst að hatrömm barátta er framundan um spænska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×