Innlent

Segja Mongús algjörlega breyttan

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Kötturinn Mongús, sem hefur verið á vergangi í Hveragerði í mörg ár, er nú orðin heimilisköttur hjá hjónum sem hafa reglulega gefið honum mat.

Kötturinn Mongús, sem hefur verið á vergangi í Hveragerði í mörg ár, er nú orðin heimilisköttur hjá hjónum sem hafa reglulega gefið honum mat. Hann er þekktur í bænum fyrir að fara inn á heimili í óþökk annarra og hrella aðra ketti en nú er hann líklega breyttur köttur.

Mongús hefur verið á vergang í Hveragerði i í mörg ár eftir að eigandi hans féll frá og átti það til að hrella aðra ketti í bænum.

Sjálfboðaliðar Villikatta höfðu lengi reynt að ná honum sem hafðist að lokum þegar þeir fengu veður af því að Mongús væri daglegur gestur hjá hjónum í bænum.

„Það datt út einn og einn dagur og þá fór maður að hugsa hvort eitthvað hefði komið fyrir hann því þetta var nú svolítið áhættusamt líf hjá honum. Hann var um allan bæ hérna, við fréttum af honum um allan bæ,“ segir Ingibjörg Bjarnadóttir, nýr eigandi Mongúsar.

Mongús var alræmdur í bænum og þekktu margir til hans.

„Hann var að angra fólk. Fór inn í hús þar sem var opið og var kattamatur og fékk sér að eta en svo fór hann að merkja og það fylgir því svolítið leiðinleg lykt,“ segir Hörður Vignir Sigurðsson.

Þá átti hann það til að ráðast á aðra ketti. Eftir að sjálfboðaliðar Villikatta náðu Mongúsi kom í ljós að hann var með miklar sýkingar í kinnum, rifinn í kringum eyru og nef, með brotna tönn og tannpínu.

Mongús var í fjórar vikur hjá Villiköttum þar sem feldurinn var kembdur oft á dag, gert var að sárum hans, hann geldur, bólusettur og ormahreinsaður.

Hjónin ákváðu þá að taka Mongús að sér. Hann hafi komið til baka breyttur köttur, en áður hafði hann einungis komið inn til að borða og ekki viljað nokkur afskipti.

„Þá gékk hann á milli lappirnar á manni og nuddaði sér upp við okkur. Þar sem við erum nú ekkert voðalega fótafim þá verðum við að passa okkur að hrynja ekki um hann,“ segja þau og hlægja.

Mongús fékk að fara út í fyrsta sinn í dag eftir að hann flutti á nýja heimilið sitt og segja hjónin að tíminn verði að leiða í ljós hvort hann sé tilbúinn að verða fyrirmyndarborgari í Hveragerði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.