Innlent

Mynt Wei Li reyndist ó­svikin

Atli Ísleifsson skrifar
Wei Li reyndi að skipta myntinni í febrúar og sagðist ætla að reyna að fá myntinni skipt í öllum útibúum á höfuðborgarsvæðinu.
Wei Li reyndi að skipta myntinni í febrúar og sagðist ætla að reyna að fá myntinni skipt í öllum útibúum á höfuðborgarsvæðinu. Stöð 2

Rannsókn á vegum Seðlabankans leiddi í ljós að mynt Kínverjans Wei Li sem hann kom með til landsins hafi verið ósvikin.

Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins þar sem vísað er í skriflegu svari frá Seðlabankanum við fyrirspurn.

Mikla athygli vakti þegar Wei Li kom með um 170 kíló af íslenskri mynt til landsins og var verðmæti hennar 1,6 milljónir króna. Stór hluti myntarinnar var skemmd, en ferðamaðurinn sagðist hafa fengið myntina frá braskara í heimalandinu. Var hluti sagður hafa komið frá fyrirtæki sem kaupi samanpressaða bílar frá Íslandi.

Wei Li reyndi að skipta myntinni í bönkum og tókst það á sumum stöðum, en eftir að grunsemdir vöknuðu var ákveðið að Seðlabankinn myndi senda hluta myntarinnar til rannsóknar hjá Royal Mint í Bretlandi þar sem íslensk mynt er slegin. Liggur niðurstaða þeirrar rannsóknar nú fyrir.

Löskuð mynt kínverska ferðamannsins og Íslandsvinarins Wei Li.Stöð 2

Wei Li segir í samtali við Fréttablaðið að niðurstaða rannsóknarinnar komi sér ekki á óvart og að hann beri ekki kala til íslenskra banka sem sumir neituðu að taka við myntinni. Hann hafi notið sín á landinu og gefið hluta upphæðarinnar til Samhjálpar.

Þá er haft eftir upplýsingafulltrúa Arion banka að bankinn enn standi fast á því að hann muni ekki taka við mynt ferðamannsins þar sem bankanum sé ekki skylt að taka við fjármunum frá fólki sem eigi ekki í viðskiptum við bankann. Enn sé óvissa um uppruna þeirra og bankinn þurfi að fara að ströngum reglum og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.