Innlent

Tæp­lega 800 manns sagt upp í fjór­tán hóp­upp­sögnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
403 var sagt upp hjá Bláa lóninu í dag.
403 var sagt upp hjá Bláa lóninu í dag. Vísir/Vilhelm

Alls hefur 771 verið sagt upp í fjórtán hópuppsögnum það sem af er maímánuði. Inni í þessum tölum er hópuppsögn sem Bláa lónið tilkynnti um í dag þar sem 403 var sagt upp störfum.

Síðasti virki dagur mánaðarins er á morgun svo fleiri tilkynningar um hópuppsagnir gætu þá borist Vinnumálastofnun.

Um 50.000 manns voru á greiðsluskrá Vinnumálastofnunar í síðasta mánuði en tæplega 70% þeirra voru á hlutabótaleiðinni. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði í samtali við fréttastofu á þriðjudag að 15.000 manns hefðu skráð sig af hlutabótum nú í maí.

Þá kvaðst hún áhyggjufull um að fleiri tilkynningar ættu eftir að berast stofnunni fyrir mánaðamót en þá höfðu átta fyrirtæki tilkynnt um hópuppsagnir. Nú hafa sem sagt sjö bæst við.

Rúmlega 4.600 manns misstu vinnuna í 56 hópuppsögnum um síðustu mánaðamót. Inni í þeirri tölu er stærsta hópuppsögn Íslandssögunnar; hópuppsögn Icelandair þar sem rúmlega 2.100 manns misstu vinnuna.

Þá voru mánaðamótin mars/apríl einnig þung á vinnumarkaði þegar 29 fyrirtæki sögðu upp 1.207 starfsmönnum. Þar af voru 164 sem misstu vinnuna hjá Bláa lóninu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.