Innlent

Frost gæti náð tuttugu gráðum í innsveitum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vegagerðin varar við vetrarfærð í öllum landshlutum í dag. Myndin er frá Suðurlandsvegi og er úr safni.
Vegagerðin varar við vetrarfærð í öllum landshlutum í dag. Myndin er frá Suðurlandsvegi og er úr safni. Vísir/Vilhelm

Spáð er kólnandi veðri á landinu í dag og gæti frost náð allt að tuttugu stigum í innsveitum í kvöld. Vetrarfærð er í öllum landshlutum og eru vegir sums staðar á Vestfjörðum og á landinu norðanverðu ófærir.

Spáð er norðaustan 8-15 metrum á sekúndu og éljagangi á landinu norðanverðu framan af degi en hægari vindi og léttskýjuðu að mestu um landið sunnanvert með frosti á bilinu tvö til tíu stig. Smám saman á að draga úr vindi og éljum og kólna. Í kvöld verður hæg breytileg átt, léttskýjað og kalt í veðri í flestum landshlutum.

Á Twitter-síðu Vegagerðarinnar kemur fram að ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og þungfært á Þröskuldum. Á Norðurlandi og Norðausturlandi er ófært eða þæfingur á nokkrum leiðum en verið er að moka.

Í fyramálið spáir Veðurstofan sunnan 10-18 metrum á sekúndu vestast á landinu en annars 8-13 metrum á sekúndu. Talsverðri snjókomu er spáð framan af degi á Vestfjörðum, léttskýjuðu norðan- og austanlands en þykkna á upp sunnanlands. Dregur úr frosti. Undir kvöld á morgun er spáð suðaustan 8-15 metrum á sekúndu sunnanlands og slyddu eða snjókomu og síðar rigningu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.