Innlent

Frost gæti náð tuttugu gráðum í innsveitum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vegagerðin varar við vetrarfærð í öllum landshlutum í dag. Myndin er frá Suðurlandsvegi og er úr safni.
Vegagerðin varar við vetrarfærð í öllum landshlutum í dag. Myndin er frá Suðurlandsvegi og er úr safni. Vísir/Vilhelm

Spáð er kólnandi veðri á landinu í dag og gæti frost náð allt að tuttugu stigum í innsveitum í kvöld. Vetrarfærð er í öllum landshlutum og eru vegir sums staðar á Vestfjörðum og á landinu norðanverðu ófærir.

Spáð er norðaustan 8-15 metrum á sekúndu og éljagangi á landinu norðanverðu framan af degi en hægari vindi og léttskýjuðu að mestu um landið sunnanvert með frosti á bilinu tvö til tíu stig. Smám saman á að draga úr vindi og éljum og kólna. Í kvöld verður hæg breytileg átt, léttskýjað og kalt í veðri í flestum landshlutum.

Á Twitter-síðu Vegagerðarinnar kemur fram að ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og þungfært á Þröskuldum. Á Norðurlandi og Norðausturlandi er ófært eða þæfingur á nokkrum leiðum en verið er að moka.

Í fyramálið spáir Veðurstofan sunnan 10-18 metrum á sekúndu vestast á landinu en annars 8-13 metrum á sekúndu. Talsverðri snjókomu er spáð framan af degi á Vestfjörðum, léttskýjuðu norðan- og austanlands en þykkna á upp sunnanlands. Dregur úr frosti. Undir kvöld á morgun er spáð suðaustan 8-15 metrum á sekúndu sunnanlands og slyddu eða snjókomu og síðar rigningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×