Innlent

Lögregla kölluð til vegna fjúkandi trampólína

Sylvía Hall skrifar
Tvær bifreiðir urðu fyrir skemmdum í morgun vegna fjúkandi trampólína.
Tvær bifreiðir urðu fyrir skemmdum í morgun vegna fjúkandi trampólína. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í morgun og í dag. Alls voru 27 mál bókuð frá klukkan fimm í morgun og til 17 nú síðdegis.

Um klukkan níu í morgun var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna pars sem hafði látið greipar sópa á gistiheimili í miðborg Reykjavíkur. Munirnir voru endurheimtir eftir að konan fannst.

Þá var ítrekað kvartað undan ónæði og hegðunar manns við veitingastað í miðborginni og var manninum vísað út. Þá var hann jafnframt beðinn um að koma ekki aftur á staðinn. Eftir hádegi í dag þurfti lögregla svo að aka konu heim til sín þar sem hún hafði verið ölvuð og til vandræða á veitingahúsi í Grafarvogi.

Klukkan fimm í morgun var tilkynnt um slagsmál í Kópavogi þar sem vinir voru að rífast og slást. Báðir hlutu nokkra áverka en vildu ekki blanda lögreglu í málið.

Fjúkandi trampólín var einnig á meðal verkefna lögreglu en rétt fyrir klukkan tíu barst tilkynning um að eitt slíkt hefði fokið í Hafnarfirði. Einn bíll varð fyrir skemmdum og var trampólínið fjarlægt. Snemma í morgun var annað samskonar mál í Mosfellsbæ og varð bifreið einnig fyrir skemmdum í það skiptið.

Í hádeginu var tilkynnt um þjófnað í matvöruverslun í miðborginni. Sakborningur viðurkenndi brotið og var skýrsla tekin á vettvangi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×