Innlent

Fresta aðgerðum vegna manneklu af völdum veirunnar á Landspítalanum

Kjartan Kjartansson skrifar
Engar valaðgerðir fara fram í Fossvogi fram yfir helgi vegna manneklu sem er tilkomin vegna kórónuveirunnar.
Engar valaðgerðir fara fram í Fossvogi fram yfir helgi vegna manneklu sem er tilkomin vegna kórónuveirunnar. Vísir/vilhelm

Ákveðið hefur verið að fresta öllum valaðgerðum á Landspítalanum í Fossvogi fram yfir helgi vegna manneklu sem er til komin vegna fjölda starfsmanna sem eru í einangrun eða sóttkví vegna kórónuveirunnar.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, staðfestir að öllum valaðgerðum verði frestað fram yfir helgi. Þær telji tugi. Áfram verði gerðar bráðaaðgerðir og þá halda aðgerðir á Hringbraut og á kvennadeild áfram.

„Það kemur til vegna þess að við erum með mikið af starfsfólki sem þarf til þeirra aðgerða í sóttkví eða einangrun,“ segir hún við Vísi.

Ekki liggur fyrir hvort að aðgerðir geti hafist strax á mánudag aftur. Anna Sigrún segir að starfsfólk komi og fari nú úr sóttkví og staðan breytist hratt. 

„Við erum auðvitað að vonast til að fá starfsmenn til baka og þá getum við startað starfsemi aftur,“ segir hún.

Fjórtán aðgerðum var frestað á Landspítalanum vegna sóttkvíar eða einangrunar starfsmanna í gær. Ellefu starfsmenn eru í einangrun og 92 í sóttkví samkvæmt upplýsingum frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd spítalans.

Anna Sigrún segir að allt hafi sjötíu aðgerðir verið felldar niður í Fossvogi í vikunni. Sjúkrahúsið þar keyri nú á um þriðjungi venjulegrar getu. Alla jafna séu gerðar um 25 aðgerðir á dag en um þessar mundir séu þær níu til tíu.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×