Innlent

Sex þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki nýttu hlutabætur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vinnumálastofnun.
Vinnumálastofnun. Vísir/hanna

Hið minnsta sex fyrirtæki, sem talin voru þjóðhagslega mikilvæg og fengu undanþágu frá hertu samkomubanni, settu starfsmenn sína á hlutabætur. Listinn yfir fyrirtæki sem settu sex starfsmenn eða fleiri á hlutabætur hefur verið birtur, en hann er þó ekki alveg tæmandi

Alls nýttu 6320 fyrirtæki hlutabótaleiðina í apríl, en langflest eða um 85 prósent, settu 1 til 5 starfsmenn á hlutabætur. Nöfn þessara fyrirtækja eru ekki á listanum sem Vinnumálastofnun birti í gær heldur aðeins nöfn þeirra sem settu sex eða fleiri á hlutabætur, og segir stofnunin að þar hafi persónuverndarsjónarmið ráðið för.

Á listanum eru um 1100 fyrirtæki og stofnanir í fjölbreyttum rekstri, allt frá arkitektastofum til Össurar, sveitarfélög og byggðasamlög. kirkjusóknir og kaupfélög. Á listanum má jafnframt finna nöfn hið minnsta sex fyrirtækja sem fengu undanþágu frá samkomubanni, þegar það var hert 24. mars þannig að aðeins máttu 20 koma saman í stað 100 áður.

Fyrirtækin fengu undanþágu frá samkomubanninu í ljósi þjóðhagslegs mikilvægis svo unnt væri að halda órofinni starfsemi þeirra áfram. Mikilvægu fyrirtækin sem sættu ekki samkomubanni en þáðu hlutabætur fyrir starfsmenn sína starfa í sjávarútvegi, stóriðju og vöruflutningum. 

Viðskiptablaðið segist jafnframt hafa heimildir fyrir því að Ríkissjóður hafi verið meðal þeirra stofnana sem nýttu sér úrræðið.

Vinnumálastofnun tekur þó ekki fram á listanum hversu margir starfsmenn fyrirtækjanna 1100 voru settir á hlutabætur eða hversu mikið starfshlutfall þeirra var lækkað, en það gat verið allt frá 20 upp í 75 prósent. Í aprílskýrslu Vinnumálastofnunar kom þó fram að nokkur stór fyrirtæki væru áberandi meðal umsækjenda um hlutabætur, þannig voru 13 fyrirtæki með meira en 150 starfsmenn hvert í minnkuðu starfshlutfalli. Samanlagt taldi það um 13% af öllum þeim einstaklingum sem nýttu úrræðið í apríl. 

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun eiga fyrirtækin 1100 það sammerkt að starfsmenn þeirra hafa þegar fengið greiddar hlutabætur í apríl eða maí. Fyrirtæki sem sett hafi starfsmenn á hlutabætur á allra síðustu dögum og vikum og fái fyrst greiddar hlutabætur um næstu mánaðamót kunni því ekki að vera á listanum, eins og fréttastofa hefur fengið upplýsingar um. Um undantekningartilfelli sé að ræða að sögn Vinnumálastofnunnar en þegar hafi fækkað nokkuð í hópi þeirra fyrirtækja sem áfram þiggja hlutabætur fyrir starfsfólk. Að sama skapi býst Vinnumálastofnun við því að þeim kunni að fækka enn frekar eftir helgi, þegar samkomubann verður rýmkað enn frekar.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.