Fótbolti

Leikmenn PSG fögnuðu með stuðningsmönnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Edison Cavani fagnar á svölum Parc des Princes, heimavelli PSG, eftir sigur gærkvöldsins.
Edison Cavani fagnar á svölum Parc des Princes, heimavelli PSG, eftir sigur gærkvöldsins. Getty/Aurelien Meunier

Ekkert óvanalegt er við það að leikmenn knattspyrnuliða fagni með stuðningsmönnum sínum. Það óvenjulega hér er að engir stuðningsmenn voru inn á leikvanginum er PSG lagði Borussia Dortmund í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gærkvöld.

Leikur liðanna fór fram fyrir luktum dyrum sökum kórónuveirunnar sem er að hafa áhrif á allt og alla þessa dagana. Það stöðvaði hins vegar ekki stuðningsmenn Paris Saint-Germain að mæta og styðja sitt lið en þeir hittust einfaldlega fyrir utan Parc des Princes, heimavöll PSG. Þar var kveikt í blysum, flugeldum og öllu tilheyrandi.

Leiknum lauk með 2-0 sigri PSG þökk sé mörkum Neymar og Juan Bernat, unnu þeir einvígið þar með 3-2 samanlagt. Eftir að hafa fagnað inn á vellinum, fyrir framan enga áhorfendur fóru leikmenn PSG út á svalir Parc des Princes þar sem þeir fögnuðu vel og innilega fyrir framan stuðningsmenn sína.

Í kjölfarið fóru leikmenn franska liðsins svo inn í klefa þar sem þeir gerðu grín að fagni hins unga Erling Braut Håland. Norski framherjinn gekk í raðir Dortmund í janúar og  fagnar öllum sínum mörkum á sama hátt. Þar á meðal marki sínu í fyrri leik liðanna en fagn hans virðist hafa farið illa ofan í leikmenn PSG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×