Innlent

Kári telur enga þörf á sótt­kví hafi veiran breiðst um allt sam­fé­lagið

Birgir Olgeirsson skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Vísir/vilhelm

Kári Stefánsson segir enga þörf á sóttkví reynist kórónuveiran hafa breiðst út um allt samfélagið. Skimun Íslenskrar erfðagreiningar miðar að því að kortleggja útbreiðslu veirunnar og hefst á föstudag.

Íslensk erfðagreining hefur fengið öll tæki og tól til að hefja skimunina. Kári vonast til að skimunin verði framkvæmd með slembiúrtaki til að kanna hvernig veiran hefur dreift sér almennt. Áætlanir eru um að skima 3-400 manns á dag.

„Við erum búin að fá pinnana sem okkur vantaði, við fengum vél í dag sem þarf að setja upp á morgun. Síðan þarf að ganga frá samskiptum okkar við Landspítalann og Sóttvarnalækni sem verður gert á morgun. Starfsfólk okkar fær leiðbeiningar í sóttvörnum. Svo vonast ég til að það verði hjólað í þetta á föstudag,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Finnst líklegt að veiran hafi dreift sér víðar en menn halda

Hann vonast til að Íslensk erfðagreining geti skimað 3-400 manns á dag og að það verði gert með slembiúrtaki.

„Vegna þess að við viljum kanna hvernig veiran hefur dreift sér, ekki bara í áhættuhópum heldur samfélaginu almennt.“

Kári veit ekki hversu víða veiran hefur dreift sér. „En mér finnst ekki ólíklegt að hún hafi dreift sér víðar en menn halda í dag. En þetta er eitt af því sem við ætlum að kanna. Ég skal svara þessu eftir svona viku en í dag vitum við þetta ekki.“

Mögulegt að veiran finni leið framhjá ónæmiskerfinu

Hann segir Íslenska erfðagreiningu ætla að skima eins marga og þörf er á. „Það fer eftir því hvað við fáum út úr fyrstu nokkur hundruð. Og svo fer það eftir því hvernig sjúkdómurinn þróast í samfélaginu. En við ætlum ekki bara að skima heldur ætlum við að raðgreina erfðaefni veirunnar úr þeim sýnum sem koma til baka jákvæð. Það er mikilvægt til að skrá hvernig stökkbreytingin á sér stað. Stökkbreytingin gerir mönnum kleift að rekja smitið. Sá möguleiki er líka fyrir hendi að veira stökkbreytist með þeim hætti að hún finni leið framhjá ónæmiskerfi okkar. Sem er mikilvægt. Ef svo er gæti veiran orðið föst í samfélaginu. Við skulum vona að það gerist ekki.“

Hann segist verða hissa ef Íslensk erfðagreining mun enn vera í skimun eftir meira en mánuð.

„En ég reiðubúinn að verða hissa, ef þörf er á munum við halda áfram.“

Sóttkví íþyngjandi

Ef niðurstaða rannsóknar ykkar verður á þá leið að veiran hefur breiðst út um allt samfélagið, hvernig ættu viðbrögð okkar að verða?

„Það breytir því að þá verður sóttkvíin gagnslaus og þá hægt að hætta henni. Vegna þess að hún er byrði á stofnunum, fyrirtækjum og fólkinu í landinu.“

En ef hún hefur breitt sér út um allt samfélagið, bæri okkur þá ekki skylda til að loka landinu til að hefta frekari útbreiðslu?

„Þetta fer að verða spurning nákvæmlega um þessi lönd eins og hluta af okkar samfélagi. Ef þetta er komið út um allt, ef þetta er í öllum löndum, þá er engin ástæða til að loka landi. Ítalir eru í sérstakri stöðu því veiran náði að breiða sér út hratt og virðist hafa breiðst út fyrr en á öðrum stöðum. Þeir hafa kannski svolitla ástæðu til að loka landinu. En endanlega þegar þetta er komið í flest í lönd í þessum heimi, hættir að vera ástæða til að loka landi eins og okkar,“ segir Kári.

Hann telur litlar líkur á að Íslensk erfðagreining muni nýta þessa rannsókn til að koma að þróun bóluefnis gegn veirunni.

„Öll gögn sem verða til úr þessu verða sett í gagnabanka sem heimurinn er að búa til í dag um þessa veiru til að hjálpa öllum samfélögum á þessum hnetti að takast á við hana.“

Ætla að fá sýni af landsbyggðinni

Hann segir auðveldara að rekja smit á Íslandi en öðrum löndum. Samfélagið lítið og bara eitt hlið inn í landið.

„Og eitt sem við komum til með að leitast við er að fá sýni frá fólki úti á landi. Flest smitin hafa greinst á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er spennandi að sjá þá hvernig veiran breiðir sér út um allt land ef hún gerir það.“

Hver sem er getur skráð sig

Þrátt fyrir slembiúrtakið ætla Íslensk erfðagreining að bjóða hverjum sem er að koma í skimun.

„Þeim verður boðið upp á ákveðinn tíma þannig að það myndist ekki þröng á þeim stað þar sem við öflum sýna. Ef það myndast þröng getur sá staður stuðlað að smiti. En svo má vera að það vilji svo margir skrá sig í skimun að það komist færri að en vilja.“

Sýni er tekið úr munni og nefholi þegar skimunin fer fram og Kári segir ekkert að óttast.

„Þetta er gjörsamlega sársaukalaust og fólk kemur ekki til með að sjá nál.“


Tengdar fréttir

Segir skimunar­um­ræðuna byggja á mis­skilningi

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að umræða síðastliðinn sólarhring um skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir kórónuveirunni byggi að hluta til á misskilningi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.