Innlent

Segir ekkert benda til þess að veiran smitist í lofti

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sóttvarnalæknir segir ekkert renna stoðum undir sögusagnir um að COVID-19 geti smitast með loftsmiti.
Sóttvarnalæknir segir ekkert renna stoðum undir sögusagnir um að COVID-19 geti smitast með loftsmiti. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist ekki vita til þess að kórónuveiran sem valdið getur sjúkdómnum COVID-19 hafi smitast í loftinu. Hann segir helstu smitleiðir vera dropasmit og snertismit.

Á blaðamannafundi í dag var Þórólfur spurður út í fregnir þess efnis að kórónuveiran gæti smitast í lofti. Þórólfur segist hins vegar ekki hafa séð upplýsingar þess efnis frá áreiðanlegum heimildum.

„Þetta er ekki staðfest og þeir vísindamenn og þær alþjóðastofnanir sem við tökum mest mark á eru með þetta eins og þessi veira hefur verið að hegða sér áður. Það er að segja, þetta er dropasmit, það þarf tiltölulega mikla nánd, innan við einn til tvo metra, og þetta er snertismit, það er að segja viðkomandi er með mengaðar hendur og snertir hluti sem síðan annar snertir fljótlega á eftir og getur þannig borið veiruna í sig,“ sagði Þórólfur.

Hann sagði þessar tvær leiðir, dropasmit og snertismit, vera smitleiðir „númer eitt, tvö og þrjú,“ en bætti þó við að veiran gæti einnig komið fram í saur, en að ekki væri ljóst hversu mikil smithæfni veirunnar væri í slíkum tilfellum.

Alma Möller landlæknir sagði þá einnig, eftir spurningu frá blaðamanni, að ekkert benti til þess að fólk með lífstílstengda sjúkdóma á borð við offitu væri í meiri áhættuhópi en aðrir. Hún sagði þó að grunur léki á að reykingafólk sé viðkvæmara fyrir veirunni en annað fólk.

Hér að neðan má sjá stutt myndbrot frá blaðamannafundi dagsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×