Fangelsismálastofnun hefur ákveðið að aflétta öllum höftum vegna Covid-19 er gilt hafa í fangelsum landsins frá því er neyðarstigi var lýst yfir. Taka aðgerðirnar gildi mánudaginn 25. maí.
Áfram gilda þó áherslur sóttvarnaryfirvalda um handþvott, sprittun og almennt að virða tveggja metra regluna eftir því sem því verður við komið. Þá er einnig í gildi reglan um að þeir sem eru í sóttkví eigi ekki að koma í fangelsi eða þeir sem eru smitaðir.
Engir skjólstæðingar Fangelsismálastofnunar eða starfsmenn hafa smitast af veirunni og er full ástæða til að þakka starfsmönnum, samstarfsaðilum og föngum fyrir góða framgöngu við erfiðar aðstæður, segir í tilkynningu frá Fangelsismálastofnun.