Innlent

Brynjar leggur fram fyrirspurn um fyrirspurnir Björns Levís

Jakob Bjarnar skrifar
Ljóst er að Björn Leví er ekki í uppáhaldi hjá Brynjari Níelssyni né öðrum Sjálfstæðismönnum ef því er að skipta. Þeir hafa nú mætt hans fjölmörgu fyrirspurnum með fyrirspurn og heitir það sennilega krókur á móti bragði.
Ljóst er að Björn Leví er ekki í uppáhaldi hjá Brynjari Níelssyni né öðrum Sjálfstæðismönnum ef því er að skipta. Þeir hafa nú mætt hans fjölmörgu fyrirspurnum með fyrirspurn og heitir það sennilega krókur á móti bragði. visir/vilhelm

Brynjar Níelsson hefur lagt fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra sem heita má nokkuð sérstök. Því fyrirspurnin er fyrirspurn um fyrirspurnir. Brynjar vill sem sagt fá að vita hversu margar vinnustundir hafa farið í það hjá ráðuneytinu að svara fyrirspurnum frá þingflokki Pírata.

Köldu hefur andað milli Pírata og Sjálfstæðismanna og sér í lagi hafa Sjálfstæðismenn látið fyrirspurnir frá Birni Leví Gunnarssyni fara í taugarnar á sér, en hann hefur ekki verið spar á spurningarnar. Brynjar ætlar nú að svara í sömu mynt. Með fyrirspurn.

Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar birtir mynd af fyrirspurn Brynjars og fylgir henni úr hlaði með orðunum: Tíðindi úr sandkassanum. Af þeim orðum Hönnu Katrínar má ráða að henni þyki þetta heldur barnalegt af Brynjari.

En fyrirspurn Brynjars til heilbrigðisráðherra um kostnað ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum er svohljóðandi:

Hversu margir starfsmenn ráðuneytisins koma að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna og hver er áætlaður heildarfjöldi vinnustunda sem í það hefur farið árlega síðastliðin fimm ár?

Hver er heildarkostnaður ráðuneytisins við skrifleg svör frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi og hversu margar vinnustundir starfsmanna hafa farið í að svara þeim

Hvað eru fyrirspurnir til skriflegs svars frá hverjum þingmanni í þingflokki Pírata hátt hlutfall slíkra fyrirspurna til ráðherra

Skriflegt svar óskast.

(Uppfært 16:18.) Samkvæmt þingskjalaskrá Alþingis liggur fyrir að Brynjar hefur sent sambærilega fyrirspurn á alla ráðherra og/eða ráðuneyti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×