Innlent

Ferðamenn vörðu 109 milljörðum á hótelum og veitingastöðum í fyrra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hótel Saga hefur eins og önnur hótel landsins þurft að glíma við eftirspurnarhrap á tímum kórónuveirunnar.
Hótel Saga hefur eins og önnur hótel landsins þurft að glíma við eftirspurnarhrap á tímum kórónuveirunnar. Vísir/vilhelm

Einkaneysluútgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu samtals um 284 milljörðum króna á árinu 2019, þar af vörðu þeir um 109 milljörðum króna í veitinga- og gistiþjónustu. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar um neyslu erlendra ferðamanna í fyrra.

Algjört hrun varð í hótelgeiranum í aprílmánuði, samanborið við sama mánuð í fyrra. Gert er ráð fyrir að gistinætur á hótelum hafi dregist saman um 97 prósent á milli ára samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þá fækkaði gistinóttum á hótelum í mars um 55 prósent.

Á eftir veitinga- og gistiþjónustu, þangað sem rúmlega 38 prósent fjármuna ferðamanna fóru, vörðu þeir næst mestu í tómstundir og menningu. Að sögn Hagstofunnar er þar m.a. um að ræða aðgangseyri inn á bað- og sundstaði, skoðunarferðir og kaup á skipulögðum pakkaferðum. Rúmlega fjórða hver króna sem ferðamenn eyddu hér á landi fór þannig í tómstundir og menningu.

Þriði stærsti útgjaldaliður ferðamanna í fyrra voru ferðir og flutningar, en þar er um að ræða útgjöld tengd samgöngum. Þar falla m.a. undir útgjöld vegna leigu á bifreiðum og aðrar greiðslur fyrir samgöngutengda þjónustu, s.s. rútuferðir og kaup á eldsneyti. Alls námu útgjöld erlendra ferðamanna tengd slíkri þjónustu um 45 milljörðum á síðasta ári eða sem nemur um 15,8% af heildareinkaneyslu erlendra ferðamanna hér á landi.

Hér að neðan má sjá nánar hvernig einkaneysla erlendra ferðamanna skiptist í fyrra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.